Þegar við tölum um sambönd hér á þessari síðu eigum við fyrst og fremst við rómantísk og/eða kynferðisleg sambönd, til dæmis parasambönd (hvort sem þau eru gagnkynja eða samkynja), en líka óformlegri sambönd, bólfélaga, one night stands, langtímasambönd, lokuð sambönd, opin sambönd, fjölkær sambönd og öll önnur sambandsmynstur sem til eru! Þótt áherslan sé á parasambönd þá á næstum allt sem þið lesið hér líka almennt við um samskipti okkar við aðra, t.d. vináttu og fjölskyldutengsl.

Á íslensku er stundum erfitt að finna orð sem lýsa fólki sem á í nánu sambandi og sem geta átt við um alla – fólk af öllum kynjum og á öllum aldri. Oft völdum við á þessarri síðu að nota orðið maki því það getur vísað til fólks af hvaða kyni sem er. Orðið er samt frekar fullorðinslegt og sumir sjá fyrir sér hjón. Hér eigum við samt við að maki geti verið kærasti, kærasta, kærast, elskhugi, bólfélagi, einhver sem maður er að hitta eða tala við eða jafnvel einhver sem þú svafst hjá einu sinni.

Það skiptir ekki máli í hvernig sambandi þú ert eða hvernig manneskja þú ert – við höfum öll gott af því að endurskoða sambandið sem við erum í og átta okkur á því hvernig við stuðlum að heilbrigðari samskiptum í kringum okkur. Óheilbrigð samskipti geta komið upp í hvaða sambandi sem er.

Erum við að deita?

Hvort sem þú kallar það að deita eða eitthvað annað skiptir máli að báðar (eða allar) manneskjurnar séu meðvitaðar um hvað sambandið felur í sér. Hvernig sem þú sérð sambandið eða hvað svo sem þú kýst að kalla það er mikilvægt að þið séuð sammála um það sem er í gangi ykkar á milli. Hafðu þessi atriði í huga:

  • Hefurðu rómantískan áhuga á manneskjunni?
  • Er gagnkvæmur áhugi á að fara í samband?
  • Eyðið þið tíma saman eða farið á deit án vina ykkar?
  • Hefurðu sagt einhverjum frá sambandinu eða deilt á netinu?
  • Eru þið sammála um hvernig sambandið stendur?

Telst það með ef við erum bara að sofa saman?

Að sofa saman þýðir ekki endilega það sama í huga allra, en venjulega er átt við einstaklinga sem þekkjast (náið eða ekki) og stunda kynlíf. Hér gæti verið um par að ræða en svo þarf alls ekki að vera.

Jafnvel þótt þið séuð „bara“ að sofa saman er mikilvægt að ríki virðing og traust ykkar á milli. Þér á alltaf að finnast þú geta tjáð vilja þinn og væntingar án þess að eiga á hættu að fá neikvæð viðbrögð. Heilbrigð samskipti eru líka mikilvæg á milli fólks sem sefur saman en lítur ekki á sig sem par og þess vegna gæti efni þessarar síðu nýst þér í þannig aðstæðum.

En ef ég er ekki að deita?

Þótt þú sért ekki að deita er mikilvægt að rækta heilbrigð sambönd í kringum sig og við sjálfa/n/t sig. Upplýsingarnar á þessari síðu geta átt við um hvaða samband sem er, hvort sem það er sambandið við þig, vinina, vinnufélaga, fyrrverandi maka eða fjölskyldumeðlimi.

Við erum ekki einu sinni saman, hvernig getur þetta kallast ofbeldi?

Ofbeldi getur komið fram í hvaða sambandi sem er, hvort sem er um maka, bólfélaga, vini, vinnufélaga eða fjölskyldumeðlimi að ræða. Þú getur upplifað óheilbrigt eða ofbeldisfullt samband hvort sem hin manneskjan er náin þér, lítið tengd þér eða bara einhver sem þú hefur sofið hjá einu sinni. Ef eitthvað í ykkar sambandi veldur þér óþægindum eða vekur upp hræðslu gæti það verið merki um óheilbrigð samskipti eða ofbeldi.