Ofbeldi í samböndum á sér ýmsar birtingarmyndir. Það einskorðast ekki við glóðarauga og brotin bein. Hvernig veistu hvort um óheilbrigt samband er að ræða? Hlustaðu á innsæið. Ef þú hefur áhyggjur af ástvini er það varla að ástæðulausu.

Hér eru nokkrir punktar til að hjálpa þér að átta þig betur á því sem gæti verið í gangi:

HVER ERU HÆTTUMERKI ÓHEILBRIGÐRA SAMBANDA?

 • Makinn uppnefnir eða gerir lítið úr ástvini þínum fyrir framan annað fólk
 • Makinn verður mjög afbrýðisamur ef ástvinur þinn talar við annað fólk
 • Ástvinur þinn afsakar hegðun makans við fólkið í kringum sig
 • Ástvinur þinn hættir oft við ykkar plön án þess að gefa fyrir því trúverðuga ástæðu
 • Þegar þið verjið tíma saman er makinn í stöðugu sambandi við ástvin þinn í gegnum netið eða síma til að athuga hvað þið séuð að gera, með hverjum þið eruð eða hvar þið eruð
 • Þú hefur orðið vitni að því þegar rifrildi ástvinar þíns og makans fara úr böndunum, t.d. þannig að hlutum er kastað
 • Makinn gerir lítið úr vinasamböndum ástvinar þíns, uppnefnir vinina og talar niðrandi um þá
 • Ástvinur þinn hefur stöðugar áhyggjur af því að makinn komist í uppnám yfir einhverju
 • Ástvinur þinn dregur sig meira og meira út úr félagslífinu og/eða samskiptum við þig og annað fólk í kringum hann
 • Ástvinur þinn hefur minni áhuga á að hugsa um sjálfan sig, námið sitt og/eða áhugamál, sem er merki um undirliggjandi þunglyndi
 • Ástvinur þinn er með áverka sem hann getur ekki útskýrt, eða útskýringarnar eru ruglingslegar og virðast ekki eiga við rök að styðjast

HVAÐ GET ÉG GERT EF ÁSTVINUR MINN ER Í ÓHEILBRIGÐU SAMBANDI?

Það getur verið erfitt að horfa upp á einhvern sem manni þykir vænt um eiga í óheilbrigðu sambandi. Oft líður manni eins og ekkert sé hægt að gera. Hafðu alltaf hugfast að ákvörðunin um að slíta sambandinu liggur hjá ástvini þínum. Þú getur ekki tekið þá ákvörðun fyrir aðra manneskju. Það sem þú getur gert er að vera til staðar fyrir ástvin þinn þegar hann þarf á þér að halda.

HVAÐ ÞARF ÉG AÐ HAFA Í HUGA?

Óheilbrigð samskipti og ofbeldi geta brenglað hugsun fólks. Ef ástvinur eða einhver annar nákominn þér á í óheilbrigðu eða ofbeldisfullu sambandi er líklegt að viðkomandi sjái aðstæðurnar í allt öðru ljósi en þú. Makinn gæti hafa talið ástvini þínum trú um að ofbeldið væri honum sjálfum að kenna. Þótt ástvinur þinn átti sig á að sambandið er óheilbrigt eða ofbeldisfullt þarf ekki að vera að hann slíti því.

Ef ástvinur þinn ákveður að fara úr sambandinu getur hann upplifað einsemd og depurð í kjölfarið. Það gæti jafnvel gerst að hann leiti aftur til makans sem beitti ofbeldi, jafnvel þótt hann sé meðvitaður um að sambandið sé ekki hollt. Hafðu í huga að það getur reynst fólki erfitt að tjá sig um svona aðstæður og eigin líðan. Reyndu að vera til staðar eftir bestu getu.

HÉR ERU NOKKUR DÆMI UM ÞAÐ HVERNIG ÞÚ GETUR VERIÐ TIL STAÐAR:

 • Hafðu samband og láttu vita að þú sért til staðar. Komdu því til skila að þú hafir áhyggjur og sért til í að hjálpa ef þess þarf.
 • Sýndu stuðning með því að hlusta. Viðurkenndu tilfinningar ástvinar þíns og sýndu ákvörðunum hans virðingu.
 • Hjálpaðu ástvini þínum að skilja að ofbeldið er EKKI honum að kenna. Allir eiga rétt á að líða vel í sínu sambandi.
 • Einbeittu þér að þolandanum, ekki makanum sem beitir ofbeldinu. Þótt ástvinur þinn ákveði að halda áfram sambandinu er mikilvægt að honum finnist hann geta rætt aðstæðurnar við þig.
 • Bentu ástvini þínum á hvert hann getur leitað. Til dæmis er hægt að benda á fræðslu á þessarri síðu eða að hafa samband við hér í gegnum netspjallið SjúktSpjall, Stígamót eða önnur úrræði fyrir þolendur ofbeldis.
 • Vertu til staðar ef ástvinur þinn hættir með makanum.
 • Ef þér líður eins og ekkert sem þú gerir hafi áhrif skaltu muna að oft nægir að ástvinur þinn viti að þú ert til staðar.
 • Ekki hafa beint samband við makann sem beitir ofbeldi eða skrifa um samband þeirra á netinu. Það getur haft neikvæð áhrif á ástvin þinn sem er ennþá fastur í aðstæðunum.
 • Hafðu í huga að það að tagga aðila í stöðuuppfærslu eða tvítum gæti einnig skapað vandamál fyrir aðila sem forðast vilja ofbeldisaðila – þá sérstaklega ef þú gefur upp staðsetningu þeirra.

SETTU ÞIG Í FYRSTA SÆTI.

Þú skiptir meginmáli og átt alltaf að skipa fyrsta sætið í þinni eigin forgangsröð. Heilsa þín og líðan skiptir mestu. Ef samband ástvinar hefur yfirþyrmandi áhrif á þig sem aðstandanda, t.d. ef ofbeldið fer að beinast að þér og þú sérð ekki fram á breytingar, er mikilvægt að þú setjir mörk varðandi samskipti við parið eða slítir mögulega samskiptunum.