Byrjum á byrjuninni – grunninum að þessu öllu saman; kynjakerfinu. Hefurðu einhvern tíma heyrt minnst á kynjakerfið? En feðraveldið? Kynjakerfið og feðraveldið eru tvö hugtök sem ná yfir sama hlutinn. Þó þú vitir ekki endilega hvað kynjakerfið er, þá er klárt mál að þú ert algjör sérfræðingur í því. Kynjakerfið er allar þær skráðu og óskráðu reglur sem segja til um hvernig við eigum að haga okkur, og þá sérstaklega í ljósi þess hvers kyns við erum. Við ölumst upp við kynjakerfið um leið og við fæðumst og lærum hvað telst viðeigandi fyrir okkur; hvernig stelpur og strákar eiga að haga sér, hverju þau eiga að hafa áhuga á, hvernig þau eiga að líta út, hverjum þau eiga að verða hrifin af og jafnvel hvernig þau megi upplifa sig í sínu eigin skinni.

Kynjakerfið er grunnur alls þess sem við tölum um á þessari síðu. Reglur kynjakerfisins eru stimplaðar inn í okkur allt frá fæðingu og við viðhöldum kerfinu eftir því sem við verðum eldri með því að sjá til þess að við sjálf og aðrir í kringum okkur fari að þessum reglum. Kynjakerfið setur okkur í ákveðinn ramma út frá kyni. Það sem telst karllægt hlýtur virðingu og völd en það sem er talið kvenlegt er álitið ómerkilegra. Þetta gerir það að verkum að konur og aðrir sem tilheyra minnihlutahópum eru skörinni lægra í samfélaginu en karlar .

Ef manneskja passar ekki inn í kynjakerfið, setur sig upp á móti því eða brýtur reglur þess á einhvern hátt kallar það oft fram neikvæð viðbrögð. Neikvæð viðbrögð gagnvart þessum hópum geta sprottið af fáfræði, fordómum eða fyrirlitningu. Þessi neikvæðu viðbrögð geta haft alvarlegar afleiðingar og ýtt undir hatur og ofbeldi gagnvart ákveðnum hópum fólks.