Hvað er klámvæðing? Þegar talað er um klámvæðingu er verið að vísa til þess hversu útbreitt og aðgengilegt klám er orðið, hversu erfitt er að stjórna eða takmarka dreifingu þess og hvaða áhrif það hefur á okkur í daglegu lífi.

Við getum séð merki klámvæðingar allt í kringum okkur; ilmvatnsauglýsingar þar sem ilmvötnin hvíla á nöktum líkama konu löðrandi í olíu, fataauglýsingar þar sem fyrirsæturnar eru í pósum sem engin manneskja myndi ósjálfrátt detta í heldur vísa í mjög kynferðislegar aðstæður og í textum tónlistarmyndbanda þar sem talað er um konur sem hórur og tíkur. Þetta eru allt dæmi um það hvernig klámvæðingin birtist okkur í hversdeginum. Orðið klámvæðing vísar til þess að áhrif kláms einskorðast ekki við klámið eitt og sér, heldur dreifast út í samfélagið og hafa áhrif á markaðssetningu, það sem við álítum eftirsóknarvert út frá auglýsingum og tísku og síðast en ekki síst hvernig við upplifum okkur sem kynverur.

Þessi klámvæðing sem er að finna allt í kringum okkur hefur líka áhrif á það hvernig við hugsum um okkur sjálf og viðhorf okkar til kynlífs. Rannsóknir á Íslandi hafa sýnt fram á að klámvæðingin hefur alvarlegar afleiðingar fyrir ungmenni og að þau upplifi mikla pressu til að stunda kynlíf og þá í grófari lagi, auk þess sem þau upplifa pressu varðandi útlit og frammistöðu í kynlífi.