Samþykki er gríðarlega mikilvægt en það er alls ekki talað nógu mikið um það – svo það er skiljanlegt að hugtakið flækist fyrir fólki.

Samþykki snýst um að tala saman um það sem við viljum, tjá okkur um það sem okkur langar til að gera og hlusta á hvort annað.

Heilbrigt samband einkennist af því að hægt er að tala opinskátt um hlutina og finna í sameiningu út úr því hvernig samskiptum og athöfnum þið maki þinn viljið taka þátt í. Það á við um öll líkamleg samskipti, hvort sem þau eru af kynferðislegu tagi eða ekki; að haldast í hendur, kyssast, snertast, stunda kynlíf og svo mætti lengi telja. Það er mjög mikilvægt að allir aðilar séu meðvitaðir og líði vel með þau samskipti sem eru í gangi hverju sinni.

Þú gætir hafa heyrt „nei þýðir nei“ – sem er alveg rétt, en gefur ekki heildarmynd af því sem samþykki felur í sér. Sá frasi setur ábyrgðina á því að neita tiltekinni athöfn á aðra manneskjuna og beinir sjónum að því sem manneskjan vill ekki. Samþykki gengur út á að tala saman um það sem við viljum og tjá okkur um það sem okkur langar til að gera – fyrir, á meðan og eftir á – og hlusta á hinn aðilann eða aðilana.

HVERNIG VIRKAR ÞETTA SAMÞYKKI?

Sumir hafa áhyggjur af því að það verði vandræðalegt að tala um samþykki eða að það muni eyðileggja stemmninguna. Það er fjarri raunveruleikanum! Stemningin verður bara betri ef við erum meðvituð um það sem bólfélaginn okkar vill og langar til að gera. Samskipti stuðla að því að ykkur líði vel og ykkur finnist þið örugg með að tjá væntingar ykkar.

Hér eru nokkrar spurningar sem gott er að hafa í huga í miðjum klíðum til að vera viss um að bólfélaginn upplifi öryggi og líði þægilega.

Hvernig líður þér?

Er þetta í lagi?

Hvað viltu að ég geri?

Viltu að við förum hægar?

Viltu að við höldum áfram?

Hvernig finnst þér gott að láta snerta þig?

Samþykki er:

 • Að eiga í samskiptum við hinn aðilann/aðilana og virða mörk hans/þeirra.
 • Að tala saman á öllum stigum kynlífs – fyrir, eftir á og á meðan á því stendur
 • Að spyrja leyfis í staðinn fyrir að gera ráð fyrir að mega gera eitthvað. Til dæmis gætirðu spurt hvort þú megir klæða hina manneskjuna úr bolnum.
 • Að halda áfram að spyrja manneskjuna hvað henni finnist gott og hvað hún vilji gera, þrátt fyrir að þið hafið sofið saman áður. Hafðu í huga að kynlíf er einstakt hverju sinni og fólk langar ekki alltaf að gera það sama. Þess vegna er mikilvægt að halda áfram að tala saman og vera viss um að samþykki sé fyrir hendi.
 • virða mörk annarra. Þó að hin manneskjan hafi ekki sagt nei beinum orðum þá þýðir það ekki að samþykki sé fyrir hendi. Samþykki felur í sér að hinn aðilinn sé meðvitaður, taki þátt og vilji láta snerta sig og tala við sig á ákveðinn hátt, hvort sem það er gefið í skyn með orðum eða líkamstjáningu. Þegar einhver vill ekki láta snerta sig eða tala við sig á vissan hátt, er óviss, hljóður, daufur í dálkinn eða segir kannski, þá er ekki um samþykki að ræða og þér ber að virða það.

Samþykki er EKKI:

 • Að gera ráð fyrir því að einhver hafi gefið þér samþykki fyrir snertingu og kynferðislegu tali út frá klæðaburði, flörti, með því að þiggja far eða drykk og þar fram eftir götunum.
 • Að gera ráð fyrir því að manneskja sem er drukkin geti gefið upplýst og meðvitað samþykki fyrir kynlífi, snertingu eða kynferðislegu tali.
 • Að segja já vegna þrýstings eða af ótta við að segja nei.

MERKI SEM GEFA TIL KYNNA AÐ MÖRKIN SÉU EKKI VIRT

Hér eru nokkur merki þess að þú sért ekki að virða mörk maka þíns. Kíktu á þetta og hugleiddu hvort eitthvað af þessu passar við þig.

Þú ert ekki að virða mörk ef þú:

 • Setur pressu á makann um að gera hluti sem hann langar ekki til eða kemur inn samviskubiti hjá honum.
 • Lætur makanum líða eins og hann skuldi þér kynlíf, t.d. af því þú gafst honum gjöf, bauðst á deit eða gerðir honum greiða.
 • Bregst illa við (reiði, leiði eða gremja) þegar makinn segir nei við einhverju eða veitir ekki samþykki sitt samstundis.
 • Hunsar tjáð mörk eða önnur líkamleg merki þess að samþykki sé ekki til staðar (t.d. ef hinn aðilinn færir sig undan eða ýtir þér frá sér). Athugaðu að hægt er að draga samþykki fyrir kynlífi til baka á hvaða tímapunkti sem er, þótt viðkomandi hafi gefið leyfi fyrir því áður.

FÁÐU ALLTAF SAMÞYKKI

Í heilbrigðum samböndum og samskiptum, hvort sem þið eruð makar, bólfélagar, fuck buddies, one night stand, vinir, djammfélagar, netvinir eða eitthvað annað, er mikilvægt að ræða saman og bera virðingu fyrir hinum aðilanum og sjálfum sér. Þótt einhver gefi samþykki á tilteknum tímapunkti þýðir það ekki að manneskjan sé sjálfkrafa búin að samþykkja athöfnina til framtíðar. Athugaðu alltaf að hinni manneskjunni líði vel með það sem þið eruð að gera og spurðu hvernig hún vill láta snerta sig og tala við sig. Allir ráða yfir sínum eigin líkama og því hver fær að snerta hann, á hvaða hátt og undir hvaða kringumstæðum.

Samþykki er fljótandi og hægt er að afturkalla það á hvaða tímapunkti sem er, hvort sem það er tjáð með orðum eða líkamstjáningu. Mikilvægt er að lesa í líkamstjáningu, hlusta og spyrja reglulega til að vera viss um að meðvitað og upplýst samþykki sé til staðar.

Hér fyrir neðan getur þú horft á stutt myndband frá Sjúkást herferðinni árið 2020: