Öll verðskuldum við að eiga í öruggu og heilbrigðu ástarsambandi. Margir halda að ofbeldi sé ekki til í hinsegin samböndum en það er því miður ekki rétt.
Samkynhneigðir, tvíkynhneigðir, trans, kvár/kynsegin, intersex og allir aðrir sem skilgreina sig undir hinsegin regnhlífinni geta upplifað ofbeldi í samböndum rétt eins og fólk í gagnkynhneigðum samböndum. Birtingarmyndir ofbeldis í hinsegin samböndum geta hins vegar verið frábrugðnar því sem fyrirfinnst í gagnkynhneigðum samböndum.
HINDRANIR FYRIR UNGT HINSEGIN FÓLK:
Kannski ertu enn að berjast við innri fordóma eða skammast þín fyrir kynhneigð, kynvitund eða kyneinkenni þín. Einstaklingurinn sem þú átt í ofbeldisfullu sambandi við gæti nýtt sér þessa skömm til þess að stjórna þér, til dæmis með því að uppnefna þig út frá kynhneigð þinni, kynvitund eða kyneinkennum og gera lítið úr upplifunum þínum eða beita þig þrýstingi í kynlífi með því að segja að eitthvað sé „eðlilegt“ í sambandi eins og ykkar, þótt þér líði ekki vel með það.
Þú gætir haft áhyggjur af því að fólk muni ekki trúa þér vegna fyrir fram gefinna hugmynda um hinsegin sambönd – svo sem að ofbeldi í hinsegin sambandi sé alltaf gagnkvæmt eða geti ekki átt sér stað í lesbísku sambandi, að aðeins stærri og sterkari aðilinn geti verið ofbeldisfullur eða að hinsegin sambönd séu óheilbrigð í sjálfu sér. Makinn gæti nýtt sér þennan ótta þinn og reynt að sannfæra þig um að enginn muni taka hinsegin manneskju alvarlega.
Ef þú hefur ekki komið út úr skápnum gæti ofbeldisfull manneskja hótað að segja öðrum frá því að þú sért hinsegin. Þú gætir líka óttast að verða að skotmarki ef þú leitar þér hjálpar, verða að athlægi eða lenda í áreiti eða einelti. Ofbeldisfullur maki gæti líka beitt þessum ótta gegn þér til þess að viðhalda sambandinu.
Þér gæti fundist að ef þú segir frá ofbeldinu líti það illa út fyrir hinsegin samfélagið í heild sinni. Hinsegin fólk verður enn fyrir miklum fordómum og hópurinn er því oft í viðkvæmri stöðu. Maki þinn gæti jafnvel notað þetta gegn þér og komið inn sektarkennd ef þú leitar þér hjálpar.
Í hinsegin samfélaginu er gjarnan lögð áhersla á að segja ekki í leyfisleysi frá hinseginleika annars fólks. Því gætirðu lent í togstreitu með að segja frá ofbeldinu ef maki þinn er ekki kominn út úr skápnum.
Ef þú býrð í einangruðu umhverfi óttastu kannski útilokun frá samfélaginu ef upp kemst um hinseginleika þinn. Ofbeldismanneskja gæti notað smæð samfélagsins til að koma í veg fyrir að þú slítir sambandinu.
Ef þú ert hluti af sama vinahóp og makinn óttastu kannski um stöðu þína innan hópsins ef þú segir frá ofbeldinu. Þú gætir óttast að vekja upp óþægilegar umræður í hópnum og efast um að þér verði trúað. Kannski óttastu jafnvel að splundra hópnum eða að þurfa að slíta samskiptum við ákveðna vini þína. Mundu að þú berð ekki ábyrgð á ofbeldinu heldur manneskjan sem beitir því – þess vegna er það ekki þér að kenna ef upp koma vandræði í vinahópnum, heldur ofbeldismanneskjunni.
Óháð öllum þeim hindrunum sem taldar eru upp hér að ofan átt þú skilið að finna til öryggis og upplifa heilbrigði í nánum samböndum. Stígamót bjóða upp á ókeypis viðtalstíma þar sem hægt er að ræða við óháðan aðila, og ráðgjöf á nafnlausu netspjalli. Samtökin ‘78, hagsmunasamtök hinsegin fólks á Íslandi, bjóða einnig upp á ókeypis tíma hjá ráðgjöfum sem sérhæfa sig í hinsegin málefnum.