Forréttindi er orð sem lýsir stöðu manneskju í samfélaginu og því forskoti sem hún hefur umfram aðra, sem hún telur eðlilegt, náttúrulegt, sanngjarnt eða pælir jafnvel ekkert í. Oft gerum við okkur ekki grein fyrir eigin forréttindum, enda fela forréttindi það í sér að viðkomandi þarf ekki að velta þeim fyrir sér. Öll njótum við einhverra forréttinda og flest skortir okkur forréttindi á einhverju sviði.

Forréttindi snerta alla þætti lífsins. Þau geta sprottið af þeirri stétt sem við fæðumst inn í, því kyni sem okkur var úthlutað við fæðingu og hvort það stemmir við kynvitund okkar, hvaða fólki við löðumst að eða hvernig við löðumst að því, hversu auðvelt það er okkur að ferðast um án þess að velta fyrir okkur aðgengi fyrir fatlaða, hversu mikið við finnum fyrir eigin húðlit, og svo mætti lengi telja. Í stuttu máli tengjast forréttindi kyni okkar, kynhneigð, kynvitund, stétt, aldri, líkamlegri og andlegri getu, trú, lífsskoðunum, félagslegri og fjárhagslegri stöðu, uppruna, þjóðerni, litarhafti, líkamsgerð o.s.frv. Til dæmis gætirðu tilheyrt minnihlutahóp að einu leyti, með því að vera hælisleitandi, en verið í forréttindahópi varðandi kyn og kynhneigð.

Skortur á forréttindum getur leitt til þess að fólk upplifir mismunun og fordóma. Þá tölum við um að fólk tilheyri minnihlutahóp eða sé jaðarsett, því kynjakerfið og samfélagið okkar gera ekki ráð fyrir þörfum þess í daglega lífinu. En samspil forréttinda og mismununar getur oft verið flókið – hvað t.d. ef manneskja tilheyrir tveimur minnihlutahópum í einu, er bæði fötluð og með dökkt litarhaft? Eða jafnvel þremur – af erlendum uppruna, trans og býr við fátækt? Þá tölum við um margþætta mismunun, því manneskjan upplifir mismunun á fleiri en einu sviði sem hefur áhrif á hennar daglega líf. Þegar við fjöllum um jafnrétti er mikilvægt að vera meðvitaður um margþætta mismunun og gera sér grein fyrir þeim fjölbreytta veruleika sem fólk býr við.