Skilaboð kynjakerfisins hafa áhrif á okkur öll og skilaboðin til karla og stráka um hvað felst í að vera „alvöru karlmaður“ hafa mikil áhrif. Fjölmiðlar, bókmenntir, ævintýri, textar og tónlistarmyndbönd eiga það öll sameiginlegt að halda uppi ákveðnum hugmyndum um hvað felst í æskilegri karlmennsku – hvað karlmenn eiga og eiga ekki að gera.

Þær hugmyndir eru t.d. á þá leið að karlmenn eigi að vera tilfinningalega fjarlægir og láta einungis rökhugsunina ráða för. Karlmenn eiga að sýna mikinn aga, bæði líkamlega og andlega, sækjast eftir því að vera í ráðandi stöðu í samfélaginu – hvort sem það er félagslega eða fjárhagslega og jafnvel að beita ofbeldi – sýna vald sitt ef þess er „þörf“. Þessar hugmyndir sem aldar eru upp í okkur ýta undir pressu á karla og stráka að þeir verði að standa sig og megi t.d. ekki gráta, tjá tilfinningar eða tala um vandamál sín við aðra, sem í verstu tilfellum getur leitt til þunglyndis og sjálfskaða.

Skaðlegar karlmennskuhugmyndir eru skaðlegar körlum, en einnig öðrum. Þeim fylgja einnig alvarlegar ranghugmyndir um kynlíf og kynferðisofbeldi. Til að vera karlmannlegur – „alvöru karlmaður“ – áttu alltaf að vera til í kynlíf og álíta alla kynferðislega athygli jákvæða og jafnvel eitthvað sem heiður er af – því fleirum sem þú sefur hjá því betra. Þessi skilaboð geta gert það að verkum að sumir strákar og karla telja sig eiga tilkall til kynlífs, og þá á þeirra forsendum. Þessar karlmennskuhugmyndir setja pressu á karla að fara yfir mörk annarra og hunsa hvort liggi fyrir raunverulegt samþykki. Það hefur sýnt sig að strákar og karlar sem tileinka sér hegðun og viðmið sem falla undir skaðlega karlmennsku eru mun líklegri til að brjóta á öðrum.

Skaðlegar karlmennskuhugmyndir á borð við að karlar eigi alltaf að geta varið sig eða að þeir eigi alltaf að taka kynferðislegum áhuga fagnandi hafa neikvæð áhrif á karlkyns brotaþola kynferðisofbeldis og leiða m.a. til þess að þeir leita sér síður hjálpar.