Stundum er orðið virðing notað til að lýsa aðdáun á einhverjum sem veitir okkur innblástur eða okkur þykir vænt um. Stundum er virðing notuð til að lýsa sambandi okkar við einhvers konar yfirvald, til dæmis foreldri, fjölskyldumeðlim, kennara, yfirmann eða lögreglu, í þeirri merkingu að bera virðingu fyrir manneskju sem býr yfir ákveðinni þekkingu og valdi. Og stundum er talað um virðingu í tengslum við mannréttindi, til að færa rök fyrir því að hver og einn eigi skilið að upplifa öryggi og taka ákvarðanir varðandi sitt eigið líf.

Hér erum við hinsvegar að tala um virðingu út frá samskiptum og heilbrigðum samböndum. Virðing er ein af undirstöðunum í nánum og innilegum samböndum. Þá eru samskiptin á jafningjagrundvelli, sem þýðir að hvorugur aðili hefur yfirráð yfir hinum og báðir eiga sér eigið líf og áhugamál. Virðing þýðir líka að þótt við séum ekki endilega sammála þá treystum við makanum og þeim ákvörðunum sem hann tekur. Þetta traust magnast með tímanum, svo þú skalt leyfa sambandinu að vaxa og dafna á meðan þú kynnist manneskjunni betur.

HVERNIG SÝNI ÉG VIRÐINGU Í HEILBRIGÐU SAMBANDI?

Virðing endurspeglast í því hvernig þið hegðið ykkur í daglegum samskiptum. Þótt það sé eðlilegt að vera ósammála er mikilvægt að sýna makanum virðingu með því að taka tillit til skoðana og hlusta af áhuga og reyna að sýna skilning. Virðing snýst hvorki um að stjórna né neyða aðra manneskju til að gera eitthvað sem hún vill ekki. Gagnkvæm virðing gengur út á að fá að vera eins og þú ert og upplifa ást út frá því.

Virðing er að:

Tala saman á opinskáan og hreinskilinn hátt

Hlusta

Taka mark á tilfinningum og þörfum hvort annars

Komast að samkomulagi

Tala fallega við og um hvort annað

Gefa og fá rými til að sinna áhugamálum, fjölskyldu og vinum

Styðja við áhugamál, atvinnu- og námsferil hvors annars

Byggja hvort annað upp með hrósi og stuðningi

Virða mörk hins aðilans öllum stundum

SJÁLFSVIRÐING

Í heilbrigðu sambandi er mikilvægt að bera virðingu fyrir maka sínum. Það er þó ekki síður mikilvægt að bera virðingu fyrir sjálfu sér, hvort sem þú ert í sambandi eða ekki. Sjálfsvirðing er lykilatriði ef þú vilt byggja upp öryggi í sambandi og viðhalda heilbrigðum samskiptum við fólkið í kringum þig.

Hvað er sjálfsvirðing? Sjálfsvirðing er að taka sjálfu þér eins og þú ert og bera virðingu fyrir þinni innri manneskju. Málið snýst ekki um að vera fullkominn einstaklingur heldur að bera líka virðingu fyrir eigin göllum. Þú skiptir máli, einfaldlega af því að þú ert þú, og öll eigum við rétt á heilbrigðri sjálfsmynd. Sjálfsvirðing felur í sér að sýna sjálfu þér samkvæmi í orði og gjörðum og reyna að hafa ekki of miklar áhyggjur af því hvað öðrum finnist.

Sjálfsvirðing felur í sér að koma vel fram við líkama og sál, hvort sem það þýðir að rækta áhugamálin, passa upp á að fá næringu, hreyfa sig eftir því sem þér finnst þægilegt, leita hjálpar þegar þú þarft á henni að halda, hvílast vel, gæta þess að taka ekki of mörg verkefni að sér, passa að fá stund út af fyrir sig, eða bara hvað sem er sem lætur þér líða vel í hinu daglega amstri.