Þú berð ábyrgð á hegðun þinni undir áhrifum. Áfengi og vímuefni hafa áhrif á dómgreind og hegðun manneskju en þau eru ekki ástæða ofbeldis. Það að vera undir áhrifum afsakar ekki ofbeldisfulla hegðun eða gjörðir sem skaða aðra. Því er mikilvægt að þekkja áhrifin sem vímuefni hafa á þig og haga neyslunni eftir því.

Til dæmis geta vímuefni og áfengi orðið til þess að þú:

  • Missir stjórn á skapi þínu
  • Virðir ekki mörk annarra
  • Getir ekki fullvissað þig um samþykki annarra
  • Eigir erfiðara með að meðtaka væntingar og óskir annarra
  • Teljir þig eiga rétt á einhverju, t.d. að önnur manneskja sofi hjá þér ef hún hefur sýnt áhuga

Aðrir áhættuþættir til að hafa í huga:

  • Tilfinningar geta espast upp og sveiflast meira en vanalega
  • Slæmar aðstæður geta auðveldlega farið úr böndunum

Ef þú átt í vandræðum með vímuefnaneyslu skaltu ekki skammast þín fyrir það. Það er hjálp í boði! Hafðu samband við SÁÁ, AA eða fíknigeðdeild LSH ef þú átt erfitt með að stjórna skapi þínu þegar þú ert undir áhrifum og vilt breyta því. Mikilvægt er að axla ábyrgð á eigin hegðun og stuðla að breytingum.

 

„Ég get ekkert að þessu gert!”

Ef þú átt erfitt með að stjórna skapi þínu þegar þú ert undir áhrifum og átt til að fara yfir mörk annarra verður þú að taka ábyrgð á eigin hegðun. Ef einhver bendir þér á að hegðun þín sé óæskileg eða skaði fólkið í kringum þig skaltu varast þessar algengu afsakanir:

„Ég meinti ekki það sem ég sagði! Ég var að drekka!“

„Ég myndi aldrei beita þig ofbeldi þegar ég er edrú.“

„Áfengi breytir mér í aðra manneskju. Ég er ekki svona í alvörunni.“

Það er mikilvægt að muna að þótt þú sért undir áhrifum endurspegla gjörðir þínar þig sem einstakling. Ef þú sýnir ofbeldisfulla hegðun undir áhrifum er oft tímaspursmál hvenær þú grípur til ofbeldis án þess að vera undir áhrifum. Það hjálpar að þekkja mörkin milli heilbrigðra og óheilbrigðra samskipta því þannig geturðu stuðlað að uppbyggilegum samskiptum í kringum þig – hvort sem um er að ræða milli vina, í parasambandi, við ókunnuga eða innan fjölskyldunnar.