Kynlíf gengur út á virðingu og traust. Að vera góður í rúminu snýst ekki um hversu margar stellingar þú getur farið í eða hversu lengi þú endist. Að vera góður í rúminu snýst um samskipti, traust, væntumþykju og virðingu.

Par í heilbrigðu sambandi getur talað saman í kynlífi og virt mörk hvort annars og tilfinningar. Þér ætti aldrei að líða eins og þú þurfir að stunda kynlíf til að makinn hætti ekki með þér. Það er allt í lagi að langa ekki að ganga lengra en t.d. að kyssast og kúra. Það er algjörlega þitt val og öðrum ber að virða það.

Þú stjórnar því hvort og hvenær þú vilt stunda kynlíf með annarri manneskju. Í heilbrigðu sambandi geturðu sagt makanum að þig langi ekki að stunda kynlíf þá stundina og makinn virðir þá ákvörðun, jafnvel þótt hann/hana/háni langi til þess.

Ef þú ert að velta því fyrir þér hvenær þú vilt byrja að stunda kynlíf er fínt að hafa þetta í huga:

  • Þetta er þín ákvörðun og enginn hefur rétt á að pressa á þig um að gera eitthvað sem þú vilt ekki.
  • Ef þér líður vel með það getur verið gott að ráðfæra sig um varnir við einhvern fullorðinn, t.d. foreldri, hjúkrunarfræðing eða kennara. Einnig er hægt að hafa samband við Ástráð, félag læknanema við Háskóla Íslands sem fer með kynlífsfræðslu um landið, eða lesa sér til um forvarnir og smitsjúkdóma á heimasíðu þeirra.
  • Sýndu þér og makanum hreinskilni. Það er allt í lagi að finnast maður ekki tilbúinn. Hinni manneskjunni ber að virða það.
  • Þú mátt hætta við á hvaða tímapunkti sem er. Ef eitthvað hræðir þig eða lætur þér líða óþægilega skaltu hlusta á eigin sannfæringu og láta hinn aðilann vita að þú viljir hætta.
  • Sömuleiðis ber þér að virða það ef hinn aðilinn vill hætta, hvenær sem er.
  • Þú átt rétt á að tala opinskátt um hvernig þér líður, hvað lætur þér líða óþægilega og hvað þú vilt og vilt ekki gera í kynlífi.
  • Ef hin manneskjan hótar þér eða pressar á þig að stunda kynlíf getur það verið merki um að sambandið sé óheilbrigt. Þú átt skilið virðingu og traust.
  • Það skiptir ekki máli hversu lengi þið hafið verið saman eða hvað þið hafið gert áður – þú átt alltaf rétt á því að neita að gera eitthvað sem þig langar ekki til, á hvaða tímapunkti sem er, og þú þarft ekki að gefa frekari ástæðu fyrir því.
  • Hinum aðilanum ber að hlusta á það sem þú segir þegar þið stundið kynlíf. Ef þú hefur ekki áhuga á að gera eitthvað tiltekið í rúminu eða stunda kynlíf yfirhöfuð ber manneskjunni að virða það. Ef hún/hann/hán heldur áfram að þrýsta á þig er það merki um misnotkun.
  • Þú ræður hver fær að snerta og tala við þig á kynferðislegan hátt. Enginn hefur leyfi til að brjóta á ákvörðunarrétti þínum yfir eigin líkama.

AF HVERJU ER ÞETTA SVONA FLÓKIÐ?

Hvort sem um er að ræða óformlegt samband eins og milli bólfélaga eða alvarlegt samband líkt og ástarsamband getur kynlíf ýtt undir sterkar tilfinningar gagnvart hinni manneskjunni, enda tengir kynlíf fólk á sérstakan hátt. Oft er þessi tenging yndisleg og veldur vellíðan, en stundum skapar hún erfiðar aðstæður. Það er mjög mikilvægt að þú sért til í að stunda kynlíf og að þér líði vel með það. Þá skiptir engu máli hvort um er að ræða fyrsta skiptið með nýrri manneskju eða þúsundasta skiptið með makanum.

Jafnvel þótt þú sért í heilbrigðu sambandi geta gildi fólks og skilningur á kynlífi stangast á. Sumum finnst eitthvað eðlilegt sem annar gæti ekki hugsað sér að gera í rúminu.

Hér eru nokkur dæmi um ýmislegt sem gæti komið upp á og þarf að ræða:

Foreldrar þínir vilja ekki að þú deitir og alls ekki að þú stundir kynlíf. Þú óttast að fjölskyldan muni komast að þessu og finnst þú vera að fara á bak við þau.

Þú ert hinsegin en hefur ekki komið út úr skápnum. Þú óttast að það muni fréttast og berast til fjölskyldu þinnar og vina. Þú ert ekki til í að koma út strax.

Þú óttast að ef þú sefur hjá manneskjunni muni það fréttast út um allan skóla, til vina þinnar og jafnvel fjölskyldunnar, og kvíðir viðbrögðunum.

Þér gæti liðið eins og þú þurfir að velja á milli þess sem þig langar að gera og þess sem aðrir búast við af þér. Mundu að þú ræður yfir þér og tekur þær ákvarðanir sem þú vilt, út frá eigin sannfæringu.

TALIÐ SAMAN Í RÚMINU!

Það veit enginn nema þú hvað er í gangi í kollinum á þér. Ef þér liggur eitthvað á hjarta en þegir yfir því þarf hin manneskjan að giska á hvað þú ert að hugsa. Eins og við höfum nefnt svo oft áður (enda sjúklega mikilvægt!) eru heilbrigð samskipti lykilatriði í heilbrigðu sambandi. Því er ekkert öðruvísi farið í kynlífi. Lykilinn að góðu kynlífi er að báðir aðilar segi hvernig þeim finnst gott að láta koma við sig, sýni og leiðbeini hinum aðilanum. Það er mikilvægt að geta talað opinskátt um hvernig kynlíf ykkur langar til að stunda hverju sinni. Hvettu hina manneskjuna einnig til að vera opin með það hvernig henni líður í sambandi við líkama sinn og kynferðislega snertingu. Að tala saman í rúminu einskorðast ekki við orð, heldur felur það líka í sér að fylgjast með líkamstjáningu hins aðilans til að vera viss um að honum líði vel og hann sé þátttakandi í því sem verið er að gera.

Að læra að hlusta er líka mjög mikilvægt, ef ekki ennþá mikilvægara. Með því að hlusta og meðtaka það sem hin manneskjan segir sýnirðu að þér sé treystandi og að þér þyki vænt um manneskjuna. Þá er einnig líklegra að hinni manneskjunni líði vel með að spyrja þig á móti. Á þessum grundvelli myndast traust í kynlífi, þið verðið nánari og ánægjan af kynlífi eykst.

Stundum þegar fólki líður óþægilega eða það er í aðstæðum sem það er ekki vant bregst það við með því að fara eftir fyrirframgefnum hugmyndum um hvernig við eigum að hegða okkur. Gott dæmi um þetta er strákur sem vill vera töff og heldur að hann eigi að sofa hjá fullt af fólki og vera alveg sama um það. Á móti gæti stelpa haldið að hún sé drusla ef hún sefur hjá „of” mörgum og að hún eigi að vera „hard to get“. Svona hegðun köllum við að falla að staðalímyndinni. Staðalímyndir gera okkur erfiðara um vik að haga okkur eins og okkur langar til, koma í veg fyrir að við tölum saman um það sem okkur finnst gott og gaman í kynlífi og geta gert okkur óörugg gagnvart öðru fólki.

Kynlíf verður betra eftir því sem við tölum meira saman og sýnum hinum aðilanum hvernig við viljum að komið sé fram við okkur. Gott getur verið að íhuga hvaða staðalímyndum er haldið að okkur og hvernig þær hafa áhrif á líf okkar. Ef þið eruð ósammála einhverri staðalímynd skuluð þið gagnrýna hana og finna einstakling sem er tilbúinn til að koma fram við ykkur af virðingu og sjá ykkur sem þá manneskju sem þið eruð, en ekki eins og þið „ættuð” að vera.

Hvort sem þig skortir áhuga á kynlífi eða þú upplifir þig á rófi eikynhneigðar er allt í lagi að langa ekki til að stunda kynlíf. Sumt fólk hefur lítinn sem engan áhuga á kynlífi, öðrum finnst þau ekki tilbúin og enn aðra langar að bíða eftir einhverri sérstakri manneskju til að vera með. Hver sem ástæðan er þá hefurðu þú rétt á því að stunda ekki kynlíf og þarft ekki að afsaka það.

 

HVAÐ ER KYNFERÐISOFBELDI?

Kynferðislegt ofbeldi og/eða áreitni er öll óumbeðin kynferðisleg snerting. Ef einhver þrýstir á aðra manneskju um að gera eitthvað sem hana/háni/honum langar ekki til eða hefur ekki gefið leyfi fyrir er það kynferðislegt ofbeldi og misnotkun. Enginn ætti nokkurn tíma að snerta þig nema þú hafir gefið leyfi fyrir því, hvort sem þú ert edrú, undir áhrifum áfengis, meðvitundarlaus af drykkju, vakandi eða sofandi. Kynferðislegt ofbeldi er refsivert samkvæmt lögum. Hér getur þú lesið þér nánar til um kynferðisofbeldi.

Hér fyrir neðan er stutt myndband út Sjúkást 2021 herferðinni: