Fólk sem hefur aldrei verið í ofbeldisfullu sambandi veltir því gjarnan fyrir sér hvers vegna þolendur ofbeldis hætta ekki bara með gerandanum. Sambandsslit geta hins vegar verið flóknari en þau virðast og það eru margar ástæður fyrir því að sumt fólk heldur áfram í ofbeldissambandi. Ef þú átt vin sem er í ofbeldisfullu eða óheilbrigðu sambandi skaltu veita vininum styrk með því að sýna því skilning að hann vilji ekki eða geti ekki slitið sambandinu.

TILFINNINGAR

Ótti: Vinkona þín kann að óttast það sem gerist ef hún bindur endi á sambandið. Ef henni hefur verið hótað af makanum eða fjölskyldu hans og vinum gæti hún verið óörugg um að slíta sambandinu.

Trúir því að ofbeldi sé eðlilegt: Vinið þitt gæti hafa alist upp við ofbeldissamband foreldra eða annarra náinna ættingja og kann því ekki að bera kennsl á óheilbrigt samband.

Skömm: Vinkonu þinni finnst líklega erfitt að viðurkenna að hún hafi orðið fyrir ofbeldi. Henni gæti jafnvel fundist hún hafa gert eitthvað rangt með því að stofna til sambands við ofbeldisfulla manneskju. Hún gæti einnig haft áhyggjur af því að fjölskylda hennar og vinir fordæmi hana fyrir það.

Ýtt út úr skápnum: Ef vinur þinn er hinsegin og ekki kominn út úr skápnum gæti maki hans hafa hótað að segja frá því ef hann slítur sambandinu. Að sagt sé frá hinseginleika gegn vilja viðkomandi getur verið ógnvekjandi.

Lágt sjálfstraust: Ef maki vinkonu þinnar gerir stöðugt lítið úr henni og kennir henni um ofbeldið er auðvelt fyrir hana að trúa þessum fullyrðingum og halda að ofbeldið sé henni sjálfri að kenna.

Ást: Vinið þitt gæti viðhaldið ofbeldisfullu sambandi í þeirri von að makinn breytist til hins betra og láti af ofbeldinu. Ef sá sem man elskar segist ætla að breytast og verða betri manneskja vill man trúa að það sé satt. Það getur verið að vinið þitt vilji bara binda endi á ofbeldið sem slíkt en ekki sambandið í heild.

ÞRÝSTINGUR

Hópþrýstingur: Ef ofbeldisfullur maki er vinsæll getur verið erfitt fyrir þolandann að segja vinum sínum frá, af ótta við að enginn muni trúa henni eða að fólk komi frekar til með að trúa ofbeldismanninum.

VANTRAUST Á FULLORÐNU FÓLKI OG YFIRVÖLDUM

„Þetta er bara hvolpaást“: Oft tekur fullorðið fólk ekki mark á ástföngnum unglingum. Þess vegna gæti vinur þinn haldið að engir fullorðnir tækju það alvarlega ef hann segði frá ofbeldinu.

Vantraust á kerfinu: Mörg ungmenni treysta ekki opinberum aðilum og trúa því ekki að þau geti sótt hjálp þangað, svo þau sleppa því að segja frá ofbeldi.

AÐ VERA HÁÐUR GERANDANUM

Vinur þinn gæti verið fjárhagslega háður manneskjunni sem beitir hann ofbeldi, sem gæti valdið því að honum þyki ómögulegt að losna úr sambandinu.

Jafnvel þótt vinkonu þína langi til að slíta sambandinu gæti henni fundist sem svo að hún ætti ekki í nein hús að venda. Þetta á auðvitað sérstaklega við ef parið er í sambúð.

Ef vinur þinn reiðir sig líkamlega á makann, t.d. við athafnir daglegs lífs, gæti hann upplifað að velferð hans sé undir makanum komin. Slíkt getur valdið því að vinurinn treystir sér ekki til að binda endi á sambandið, jafnvel þótt um ofbeldissamband sé að ræða.

Ef vinur þinn eða fjölskyldumeðlimur er fastur í ofbeldisfullu sambandi er mikilvægast að styðja við bakið á viðkomandi og hlusta. Ekki dæma! Í óheilbrigðum og ofbeldisfullum samböndum gengur á ýmsu, gættu þess að gera ekki kröfur á þolandann um að vera fullkomið fórnarlamb. Þó svo að viðkomandi hafi einhvern tímann hagað sér illa þýðir það ekki að hann eigi ofbeldi skilið.

Það getur verið mjög erfitt að yfirgefa óheilbrigt eða ofbeldisfullt samband. Reyndu að koma vin/konu þinni í skilning um að hún hafi úr fleiri kostum að velja. Bentu henni á að kanna vefsíður á borð við fræðslusíðuna okkar, jafnvel þótt hún haldi áfram í ofbeldisfullu sambandi. Slíkar upplýsingar gætu hjálpað þótt svo virðist kannski ekki í fyrstu.