Staðreyndin í dag er sú að mörg ungmenni sækja í klám til að fræðast um kynlíf, þar sem þau fá ekki kynfræðslu sem höfðar til þeirra eða fá of lítið af henni. Það er skiljanlegt að leitað sé í klám ef upplýsingar er ekki að fá annars staðar. Eins og við höfum tekið fram hér að ofan er klám hins vegar ekki það sama og kynlífsfræðsla. Í klámi er aldrei minnst á kynheilbrigði og það sjaldnast sett í forgang. Hér eru hins vegar nokkrir hlutir sem mikilvægt er að vita um kynheilbrigði.

Kynheilbrigði þitt er númer eitt, tvö og þrjú. Til að stuðla að eigin kynheilbrigði þarftu að huga að því að þér líði vel í eigin skinni og að líkami þinn sé heilbrigður, en einnig að þú þekkir þinn eigin líkama og hafir einhverja hugmynd um hvað þér finnst gott, hvað þú ert til í að gera og hvað ekki. Kynheilbrigði gengur líka út á að hugmyndir þínar um kynlíf séu veruleikatengdar, en klám gengur sjaldan út á að veita heilbrigða ímynd af kynlífi.

Þegar þú ert fyrst að þreifa þig áfram í kynlífi er mikilvægt að gefa sér rými til að læra, hlusta og tala saman. Enginn fæðist með stórkostlega hæfileika í rúminu, heldur þurfa allir æfingu í að hlusta, tala saman og læra á eigin líkama sem og manneskjunnar sem maður er með. Leyfðu þér að læra og taktu mark á eigin tilfinningu ef þú hefur ekki áhuga á að prófa eitthvað. Þú átt rétt á að þér líði vel kynferðislega, bæði á eigin spýtur og með öðrum.

Hér fyrir neðan getur þú horft á myndband frá Sjúkást herferð 2020 um sjálfsfróun og að þekkja eigin mörk: