Stafrænt ofbeldi felst í notkun tækja og tækni, svo sem síma, tölvu og samfélagsmiðla, til að áreita, beita ofbeldi, ofsækja, niðurlægja eða ógna. Stafrænt ofbeldi er því andlegt og kynferðislegt ofbeldi. Í heilbrigðu sambandi grundvallast samskiptin á virðingu, hvort sem þau fara fram í eigin persónu, á netinu eða í síma.

Það er aldrei ásættanlegt að hinn aðilinn geri eða segi eitthvað sem lætur þér líða illa, minnkar sjálfstraust þitt eða ráðskast með þig.

Þú gætir verið að upplifa stafrænt ofbeldi ef maki þinn (eða einhver annar):

  • Segir þér til um hvern þú megir og megir ekki vingast við á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum.
  • Sendir þér neikvæð, lítillækkandi og jafnvel ógnandi skilaboð.
  • Notast við samfélagsmiðla á borð við Tiktok, Instagram, Facebook, BeReal, Twitter og SnapChat til þess að athuga stöðugt hvað þú ert að gera og með hverjum.
  • Gerir lítið úr þér í stöðuuppfærslum á sínum samfélagsmiðlum.
  • Stelur eða heimtar að fá lykilorðin þín að t.d. samfélagsmiðlum.
  • Sendir endalaus skilaboð og lætur þér líða eins og þú getir ekki verið án símans af ótta við að vera refsað.
  • Lítur reglulega í gegnum símann þinn, skoðar myndirnar þínar, skilaboð sem þú hefur fengið og símtöl sem þú hefur hringt, jafnvel þegar þú sérð ekki til.
  • Taggar þig á óvingjarnlegum, móðgandi eða niðurlægjandi myndum á Instagram, Tumblr, o.s.frv.
  • Notar einhvers konar tækni (t.d. GPS í bíl eða á síma) til þess að fylgjast með þér
  • Þykjist vera einhver annar en hann er á samfélagsmiðlum til þess að fylgjast með þér eða spjallar við þig undir gervi prófíl eða prófil annara.

Stafrænt kynferðisofbeldi

Þolandi stafræns kynferðisofbeldi getur upplifað mikla vanlíðan, niðurlægingu, skömm og áhyggjur. Það að verða fyrir stafrænu kynferðisofbeldi getur haft jafn miklar afleiðingar og kynferðisofbeldi sem á sér stað í raunheimum.

Þú gætir verið að upplifa stafrænt kynferðisofbeldi ef maki þinn, bólfélagi eða einhver annar:

  • Sendir þér óumbeðnar, grófar kynferðislegar myndir, myndbönd eða skilaboð.
  • Beitir þig þrýstingi til að senda nektarmyndir eða myndbönd af þér eða taka þátt í grófu samtali.
  • Dreifir kynferðislegu efni af þér, t.d. myndir, myndbönd, hljóðupptökur eða skilaboð. Gerandi gerir þetta með því að birta efnið á síður á netið, á samfélagsmiðla, senda til vina sinna eða til vina eða fjölskyldu þinnar. Kynferðislega efnið getur verið raunverulegt eða falsað, t.d. raunveruleg mynd af þér eða mynd sem er búin til í tölvu.
  • Hótar að dreifa kynferðislegu efni af þér, jafnvel til þess að þrýsta á þig til að senda meira og jafnvel grófara efni.
  • Tekur kynferðislegar myndir/myndbönd af þér í leyfisleysi og dreifir eða hótar að dreifa því.

Þú átt aldrei skilið að komið sé illa fram við þig, hvorki á netinu né í raunheimum. Mundu að:

  • Það er ólöglegt að beita stafrænu kynferðisofbeldi.
  • Makinn á að virða þín mörk.
  • Það er aldrei þér að kenna ef einhver brýtur á trausti þínu og dreifir myndum af þér án leyfis.
  • Það er allt í lagi að slökkva á símanum eða stilla á silent. Þú átt rétt á að verja tíma út af fyrir þig og vera með fjölskyldu og vinum án þess að makinn reiðist.
  • Þú þarft ekki að senda myndir eða skilaboð (sexting) sem þér líður óþægilega með – þá sérstaklega nektarmyndir.
  • Þú þarft ekki að deila lykilorðunum þínum með neinum.
  • Stilltu aðganginn þinn að samfélagsmiðlum eins og þér líður best með. Miðlar eins og Facebook og Instragram gera notandanum kleift að stjórna því hvaða upplýsingum er deilt með öðrum og hver hefur aðgang að þeim.
  • Gættu að þér þegar notast er við t.d. Snapmap á Snapchat og spurðu líka vini þína hvort það sé í lagi að þú taggir þau í póstum á samfélagsmiðlum almennt.

MUNDU

Stafrænt ofbeldi er aldrei þér að kenna. Ræddu það sem gerðist við einhvern sem þú treystir – foreldri, vin eða kennara. Þú gætir líka talað við óháðan aðila, t.d. námsráðgjafa, skólasálfræðing, heilsugæsluna, ráðgjafa hjá samtökum sem berjast gegn ofbeldi eða félagsþjónustu. Þú getur einnig haft samband við okkur hér í gegnum SjúktSpjall.

 

Hér fyrir neðan er stutt myndband úr Sjúkást 2021 herferðinni: