Hvað ef ég horfi á klám og finnst það fínt til að fróa mér yfir? Það eru margir sem gera það en það er hins vegar gott að hafa nokkra hluti í huga.

Klám getur haft mikil áhrif á fólk, sérstaklega ef mikið er horft á það eða ekki gerður skýr greinarmunur á kynlífi og klámi. Þá getur klám haft neikvæð áhrif á þig og sambönd þín við annað fólk. Klám getur til að mynda:

  • ‍Ýtt undir áhyggjur varðandi útlit; að maður sé of grannur eða of feitur, með of stór eða of lítil brjóst, hvort typpið sé nógu stórt og haldi reisn nógu lengi, hvort það eigi að hafa hár eða ekki á ákveðnum líkamspörtum o.s.frv. – sumsé að þú sért ekki í lagi bara eins og þú ert.
  • ‍Ýtt undir áhyggjur varðandi frammistöðu; að þurfa að vera í x mörgum stellingum til að kynlífið sé heitt og „spennandi”, að þurfa að vera með bóner í lengri tíma og fá það ekki of fljótt, að þurfa stöðugt að toppa aðra í kringum sig með krassandi kynlífssögum, að stynja sjúklega hátt til að gefa til kynna að þú sért að fíla kynlífið, að fá það í hvert skipti sem þú stundar kynlíf og það með látum.
  • ‍Haft áhrif á framtíðar-/núverandi samband; með því að taka hugmyndir úr klámi og yfirfæra þær á eigið kynlíf án þess að gera sér grein fyrir því að virða verður mörk og samþykki (sem er aldrei rætt í klámi), með því að blörra línuna á milli kynlífs og ofbeldis, með því að ýta undir hugmyndir um að kynferðisleg niðurlæging fólks, og þá sérstaklega kvenna, sé ásættanleg.
  • ‍Ýtt undir óheilbrigða klámnotkun; með því að sækjast sífellt í mikið og gróft klám getur fólk farið að upplifa að klám sé því nauðsynlegt til að örva sig kynferðislega, upp að því marki að verða háð klámi til að ná kynferðislegri örvun í sjálfsfróun sem og kynlífi. Þá er gott að taka hlé eða hætta alveg að horfa á klám og þjálfa betur upp ímyndunaraflið.