Ofbeldi í sambandi einkennist af hegðunarmynstri sem gengur út á að stjórna, hræða og niðurlægja makann til að ná og viðhalda yfirráðum. Þótt við skilgreinum ofbeldi í sambandi sem hegðunarmynstur þýðir það ekki að ef það gerist „bara“ einu sinni kallist það ekki ofbeldi – það þýðir einfaldlega að við gerum ráð fyrir því að ofbeldi í samböndum birtist í flestum tilfellum sem endurtekin ofbeldishegðun sem getur stigmagnast með tímanum. Til að gera sér betur grein fyrir því hvernig slíkt hegðunarmynstur lítur út þarf að þekkja hættumerki ofbeldis.

HÆTTUMERKI OFBELDIS Í SAMBÖNDUM

Segja má að samskipti í samböndum spanni ákveðið róf:

Heilbrigð samskiptióheilbrigð samskipti – ofbeldi. Það getur reynst erfitt að sjá hvenær hegðun hins aðilans fer frá því að vera heilbrigð yfir í að vera óheilbrigð og jafnvel ofbeldisfull. Hér má sjá nokkur hættumerki sem geta gefið til kynna að sambandið sé á rangri leið:

  • ‍Skoðar símann þinn eða tölvupóst án leyfis
  • Niðurlægir þig
  • Yfirgengileg afbrýðisemi eða óöryggi
  • Missir stjórn á skapi sínu
  • Einangrar þig frá fjölskyldu eða vinum
  • Ósannar ásakanir
  • Skapsveiflur
  • Líkamlegt ofbeldi
  • Sýnir ráðríki og vill stjórna
  • Segir þér hvað þú átt að gera eða hvernig þú átt að haga þér
  • Pressar á þig eða neyðir þig til að stunda kynlíf

Hafðu í huga að þetta eru einungis örfá dæmi um óheilbrigð samskipti. Lestu þér til hér á fræðsluvefnum okkar um heilbrigð samskipti, leiðir til að leysa úr ágreiningi, einkenni ofbeldissambanda og hvað er hægt að gera.

Þú getur einnig tekið sjálfspróf um hvernig sé komið fram við þig í sambandinu og hvernig þú stendur þig í sambandinu.

HVERJAR ERU BIRTINGARMYNDIR OFBELDIS Í SAMBÖNDUM?

Margir halda að ofbeldi/misnotkun þýði alltaf að ofbeldið sé líkamlegt en svo þarf ekki að vera. Ofbeldi á sér margar birtingarmyndir og er alls ekki bara líkamlegt. Skoðaðu hlekkina hér til að fræðast meira um algengar birtingarmyndir ofbeldis svo þér reynist auðveldara að bera kennsl á það. Ef þú kannast við eitt eða tvö dæmi úr þínu sambandi er það viðvörunarmerki um að ofbeldi gæti verið til staðar. Og mundu að allt ofbeldi er alvarlegt. Þú átt ekki skilið að upplifa ofbeldi af neinu tagi.