Hefur þú heyrt minnst á meðvirkni? Hvernig kemur meðvirkni fram í samböndum og hvað ber að varast?

Meðvirkni er þegar maður reynir stöðugt að breyta, laga eða stjórna hegðun maka eða annars nákomins aðila. Oft er það svo að meðvirkt fólk upplifir sig ekki hafa mikil völd eða mikla stjórn í samböndum sínum og finna makar ofbeldisfullra einstaklinga gjarnan fyrir meðvirkni. Öll tilvera þeirra fer að snúast um að reyna að haga sér „rétt“ til að reita makann ekki til reiði eða valda honum vonbrigðum. Þessu fylgja miklar áhyggjur um líðan og hugarástand makans og hvernig hægt sé að halda honum góðum. Þannig fer fókusinn hjá meðvirku manneskjunni yfir á hinn aðilann í sambandinu og því að reyna að hafa stjórn á honum og aðstæðum, þó svo að manneskjan geti í raun og veru bara haft stjórn á eigin hegðun. Þetta gildir ekki bara um sambönd þar sem líkamlegu ofbeldi er beitt. Meðvirkni er algengur og fyrirferðarmikill þáttur í óheilbrigðum og ofbeldisfullum samböndum.

Það er til marks um meðvirkni að:

Hamingja og lífsfylling ráðist af hinum aðilanum

Hylma yfir vandamál maka síns og afsaka þau

Skammast sín fyrir hegðun makans

Reyna að stjórna hegðun makans til þess að leysa vandamálið

Kenna sér um hegðun makans og erfiðleika í sambandinu

Reyna að „laga“ makann

Ef þú kannast við eitthvað af ofantöldu er gott að hafa í huga að:

Þú getur bara stjórnað þínum eigin hugsunum og gjörðum

Þú berð ekki ábyrgð á hegðun annarra

Ef þú verður fyrir ofbeldi er það aldrei þér að kenna

Þú þarft að sætta þig við að geta ekki breytt öðrum

Þú átt rétt á að setja þína eigin vellíðan í fyrsta sæti

Þínar tilfinningar og hugmyndir eru ekki minna virði en maka þíns

Margar ástæður geta valdið því að fólk þróar með sér meðvirkni. Oftast er talað um meðvirkni þegar fólk á í tilfinningalegu sambandi við vímuefnaneytanda, en meðvirkni getur sprottið upp í ýmsum öðrum aðstæðum, til að mynda í óheilbrigðu sambandi þar sem andlegu og/eða líkamlegu ofbeldi er beitt.

Sá sem er meðvirkur reynir að stjórna eða taka ábyrgð á gjörðum annarra. Með því hjálpar sá meðvirki hinum aðilanum að forðast að takast á við vandamálið með beinum hætti. Meðvirkni kemur stundum til af því að maður þráir að halda stöðugleika og friði í samskiptum, jafnvel þótt sambandið sé óheilbrigt. Meðvirk manneskja er í grunninn tilfinningalega háð öðrum einstaklingi. Slíkt getur haft mikil áhrif á sjálfsmyndina og því ástæða til að endurskoða sambandið og mögulega leita sér hjálpar.