Fólk sem beitir ofbeldi í samböndum sínum við aðra trúir því að það hafi rétt á að stjórna högum hins aðilans. Ofbeldisfólk telur sig oft vita best og því sé æskilegt að það sé við stjórnvölinn. Oft hefur þetta fólk ekki lært að taka ábyrgð á samskiptum sínum við aðra og telur jafnvel að sambönd eigi að byggjast á misrétti. Það skiptir samt ekki máli hver ástæðan er – hún afsakar ekki hegðun sem veldur öðrum skaða.

OFBELDI ER LÆRÐ HEGÐUN.

Stundum elst fólk upp við ofbeldi og stundum heldur það að ofbeldishegðun sé réttlætanleg því það hefur lært hana af vinum eða þá að sú hegðun hefur talist eðlileg í kringum það. Hvar svo sem svona hegðun lærist er hún aldrei í lagi og aldrei réttlætanleg. Margir verða fyrir eða verða vitni að ofbeldi í uppvextinum en ákveða að beita ekki ofbeldi sjálfir – taka meðvitaða ákvörðun um að brjótast út úr óheilbrigða samskiptamynstrinu sem þeir lærðu í æsku.

Mikilvægast er að muna að ofbeldi er alltaf val og að enginn neyðist til að beita því. Hver sem er getur beitt ofbeldi og hver sem er getur orðið fyrir því. Ofbeldi á sér stað óháð kyni, aldri, kynhneigð, fötlun, litarhafti, kynvitund, stétt, fjárhagslegum aðstæðum o.s.frv. Ef þú átt erfitt með heilbrigð samskipti og/eða beitir annað fólk ofbeldi til að finnast þú vera við stjórnvölinn skaltu prófa að lesa þér til um heilbrigð samskipti og einkenni ofbeldissambanda hér á síðunni. Það skiptir líka máli að leita sér aðstoðar til að brjótast út úr slíku hegðunarmynstri og geta átt í uppbyggilegum samskiptum.