Fólk sem beitir ofbeldi í samböndum sínum við aðra trúir því að það hafi rétt á að stjórna högum hins aðilans. Ofbeldisfólk telur sig oft vita best og því sé æskilegt að það sé við stjórnvölinn. Það réttlætir oftast ofbeldið sem það beitir með því að kenna öðru fólki eða aðstæðum um. Oft hefur þetta fólk ekki lært að taka ábyrgð á samskiptum sínum við aðra og telur jafnvel að sambönd eigi að byggjast á misrétti. Það skiptir samt ekki máli hver ástæðan er – hún afsakar ekki hegðun sem veldur öðrum skaða.

OFBELDI ER LÆRÐ HEGÐUN

Stundum elst fólk upp við ofbeldi t.d. í fjölskyldu sinni og þekkir varla annað og finnst það jafnvel eðlilegur eða óhjákvæmilegur hluti af samböndum. Stundum heldur fólk að ofbeldishegðun sé í lagi og eðlileg því það fær skilaboð um að svo sé frá umhverfi sínu, t.d. vinum, fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og fleira. Hvar svo sem svona hegðun lærist er hún aldrei í lagi og aldrei réttlætanleg. Það er auðvitað alls ekki þannig að allt fólk sem verður vitni að ofbeldi eða er beitt ofbeldi í æsku fer síðan að beita annað fólk ofbeldi. Mjög margir taka meðvitaða ákvörðun um að brjótast út úr óheilbrigða samskiptamynstrinu sem þeir lærðu í æsku.

Ofbeldi er alltaf val og enginn neyðist til að beita því.

Hver sem er getur beitt ofbeldi og hver sem er getur orðið fyrir því. Ofbeldi á sér stað óháð kyni, aldri, kynhneigð, fötlun, litarhafti, kynvitund, stétt, fjárhagslegum aðstæðum o.s.frv. Ef þú átt erfitt með heilbrigð samskipti og/eða beitir annað fólk ofbeldi skaltu prófa að lesa þér til um heilbrigð samskipti og einkenni ofbeldissambanda hér á síðunni. Það skiptir líka máli að leita sér aðstoðar til að brjótast út úr slíku hegðunarmynstri og geta átt í uppbyggilegum samskiptum.

FÁÐU AÐSTOÐ

Ef þú hefur áhyggjur af þinni hegðun, eða ert að beita ofbeldi og vilt hætta getur þú leitað til Heimilisfriðar (fyrir 18 ára og eldri) eða haft samband við Taktu skrefið ef þú ert 16 ára og eldri og ert að beita kynferðisofbeldi. Ef þú ert yngri en 18 ára skaltu hafa samband við barnavernd og/eða leita til sálfræðings, ráðgjafa eða tala við fullorðinn sem þú treystir. Þú getur einnig alltaf spjallað nafnlaust við ráðgjafa á Sjúktspjall.