Andlegt ofbeldi felur í sér hótanir, niðurlægingu, óvelkomið og yfirþyrmandi eftirlit svo sem með endalausum skilaboðum, auðmýkingu, ógnun, einangrun eða ofsóknir.

Andlegt ofbeldi getur líka birst á duldari hátt:

 • ‍Að uppnefna þig og gera lítið úr þér
 • Að öskra á þig
 • Að niðurlægja þig viljandi fyrir framan aðra
 • Að koma í veg fyrir að þú hittir eða talir við vini þína eða fjölskyldumeðlimi
 • Að segja þér í hverju þú átt að vera eða hvernig þú átt að haga þér
 • Að eyðileggja eigur þínar í bræðiskasti (henda hlutum, kýla í vegg, sparka í hurð o.s.frv.)
 • Að notast við samfélagsmiðla eða síma til að stjórna þér, ógna eða niðurlægja.
 • Að nota hegðun þína sem afsökun fyrir ofbeldi eða óheilbrigðri hegðun.
 • Að saka þig um framhjáhald og fyllast afbrýðisemi yfir samskiptum þínum við annað fólk
 • Að ofsækja þig
 • Að hóta að fremja sjálfsvíg til að koma í veg fyrir að þú slítir sambandinu
 • Að hóta að skaða þig, gæludýrið þitt eða fólk sem þér er annt um
 • Að láta þig efast um upplifanir þínar og tilfinningar þannig að þú heldur jafnvel að þú sért að ímynda þér ofbeldið sem þú verður fyrir
 • Að þrýsta á um kynferðislegar athafnir með því að láta þig fá samviskubit eða saka þig um barnaskap þegar þú vilt ekki gera eitthvað
 • Að hóta að opinbera einkamál þín, svo sem kynhneigð eða heimilisaðstæður
 • Að hóta að dreifa viðkvæmum myndum af þér á netinu
 • Að dreifa ljótum sögum um þig

ER ANDLEGT OFBELDI VIRKILEGA OFBELDI?

Samband getur verið óheilbrigt og ofbeldisfullt án þess að það leiði nokkurn tíma til líkamlegs ofbeldis. Andlegt ofbeldi veldur tilfinningalegum skaða og sárum. Stundum verður ofbeldið svo slæmt að þú ferð að trúa því sem maki þinn segir. Þú ferð að halda að þú sért einskis virði, ljót og heimsk manneskja. Þú sannfærist jafnvel um að enginn annar myndi vilja vera í sambandi með þér því stöðug gagnrýni og niðurlæging brýtur niður sjálfsmyndina. Þú gætir jafnvel farið að kenna þér um ofbeldishegðun makans.

MUNDU

Andlegt ofbeldi er aldrei þér að kenna. Ræddu aðstæður þínar við einhvern sem þú treystir – foreldri, vin eða kennara – eða talaðu við óháðan aðila, t.d. námsráðgjafa, skólasálfræðing, heilsugæsluna, ráðgjafa hjá samtökum sem berjast gegn ofbeldi eða félagsþjónustu.