Fólk skilgreinir sambönd á mismunandi hátt. Hvert og eitt samband er einstakt, hvort sem um er að ræða parasamband, vinasamband eða samband við fjölskyldumeðlimi. En til að samband geti talist heilbrigt þarf nokkur nauðsynleg hráefni!
Opinská, hreinskilin og traust samskipti eru undirstöðuatriði í heilbrigðu sambandi. Fyrsta skrefið í því að byggja upp gott samband er að skilja þarfir og væntingar þínar og hinnar manneskjunnar – að vera á sömu blaðsíðunni. Það þýðir að þið verðið að tala saman!
Hér eru nokkur ráð sem geta hjálpað til við að byggja upp heilbrigt samband og viðhalda því:
Segðu frá.
Þegar eitthvað er að angra þig skaltu segja frá því í staðinn fyrir að halda því út af fyrir þig.
Sýndu virðingu.
Væntingar og tilfinningar ykkar beggja skipta máli. Sýndu manneskjunni sem þú ert með að þú leggir þig fram við að taka tillit til ykkar beggja. Í heilbrigðu sambandi er gagnkvæm virðing algjört grundvallaratriði.
Settu mörk.
Veltu því fyrir þér hvernig þú vilt að komið sé fram við þig og hvað þér þykir þægilegt og óþægilegt. Þú setur mörk til að aðskilja og gera þér grein fyrir hvar þú endar og hvar hinn einstaklingurinn byrjar.
Komist að samkomulagi.
Það er eðlilegt að vera ekki alltaf sammála en þá er mikilvægt að finna leið til að komast að samkomulagi. Reynið að leysa úr ágreiningi á sanngjarnan og uppbyggilegan hátt.
Sýndu stuðning.
Vertu hughreystandi og uppörvandi þegar þess þarf. Láttu líka vita þegar þú þarft á stuðningi að halda. Heilbrigð sambönd ganga út á að manneskjurnar í sambandinu byggi hvora aðra upp.
Berðu virðingu fyrir einkalífinu.
Þótt þið séuð saman þýðir það ekki að þið þurfið að vera saman öllum stundum. Það er hollt fyrir ykkur að fá næði til að hitta vini og fjölskyldu og rækta áhugamálin ykkar í einrúmi. Það á líka við á samfélagsmiðlum.
Að setja mörk er góð leið til að skapa heilbrigt og öruggt samband. Gott er að velta því fyrir sér hvernig þú vilt að sé komið fram við þig og hlusta síðan á það hvernig makinn vill láta koma fram við sig. Ef þið ræðið mörkin ykkar áttið þið ykkur betur á því hvernig sambandi þið sækist eftir. Mörk eru ekki til þess gerð að hefta þig eða láta þér líða eins og þú þurfir að tipla á tánum í kringum hina manneskjuna. Að setja mörk þýðir ekki að maður vantreysti hinum – heldur þveröfugt. Mörk segja til um það sem þér líður vel með og hvernig þú vilt að komið sé fram við þig. Mundu að það að maki þinn setji mörk á ekki að koma í veg fyrir neitt af eftirtöldu:
Hér getur þú frætt þig meira um mörk.