Að kunna að setja mörk er mikilvægt í öllum samböndum, hvort sem um er að ræða langtímasamband, bólfélaga eða eitthvað annað. Í heilbrigðu sambandi er mikilvægt að þekkja bæði þín eigin mörk og mörk maka þíns. Þess vegna verðið þið að geta talað opinskátt saman án þess að óttast viðbrögðin. Ef bólfélagi eða maki gerir lítið úr þörfum þínum, segir þær kjánalegar eða bregst á annan hátt illa við þeim mörkum sem þú setur, sýnir viðkomandi þér ekki virðinguna sem þú átt skilið. Mörk eru grundvallaratriði í því að geta átt í ánægjulegum og heilbrigðum samskiptum.
Að tala saman um mörk hjálpar ykkur að passa upp á að þörfum og löngunum ykkar sé sinnt og að ykkur líði vel saman. Þegar sett eru mörk í sambandi er gott að hafa eftirfarandi í huga:
Mörk eru eiga ekki einungis við í kynlífi, heldur skiptir líka máli að setja tilfinningaleg mörk. Hér eru nokkur mörk:
Ég elska þig.
Að viðurkenna ást á annarri manneskju er oft álitið stórt skref í sambandi. Hins vegar kemur rétti tíminn til að segja: „Ég elska þig,“ ekki endilega samtímis fyrir báða aðila. Ef manneskjan sem þú ert að hitta segist elska þig er allt í lagi að þú treystir þér ekki til að segja það á sama tímapunkti. Hins vegar er gott að láta viðkomandi vita hvernig þér leið við þessa játningu og hvernig þú sérð fyrir þér framtíð ykkar.
Að hafa tíma út af fyrir sig.
Eins frábært og það er að eyða tíma með manneskju sem manni þykir vænt um er mikilvægt að eiga líka tíma út af fyrir sig. Báðir aðilar hafa gott af því að vera með vinum og fjölskyldu og það á ekki að þurfa leyfi makans til þess. Svo er líka gott að vera einn með sjálfum sér og rækta áhugamálin sín. Það er mikilvægt að geta sagt hinum aðilanum að við þurfum tíma út af fyrir okkur án þess að finna fyrir pressu um að verja meiri tíma með viðkomandi.
Þú átt rétt á að setja mörk um líkamlega snertingu og hvernig talað er við þig, hvort sem er af kynferðislegu tagi eða ekki. Hér eru nokkrir hlutir sem gott er að hafa í huga í sambandi við líkamleg mörk:
Á þínum hraða.
Ekki flýta þér. Það að verða líkamlega og kynferðislega náinn einhverjum þarf ekki að gerast í einum rykk. Í heilbrigðu sambandi eru báðir aðilar meðvitaðir um það hversu langt þeir vilja ganga, því þeir tala saman og láta hinn vita ef eitthvað breytist. Það eru engar reglur um hversu langt á að ganga á hverjum tímapunkti í sambandinu. Þú finnur hvað þér líður vel með hverju sinni.
Kynlíf er ekki gjaldmiðill.
Þú skuldar ekki neinum neitt kynferðislega, ekki heldur þótt einhver bjóði þér út að borða, gefi þér gjöf eða segist elska þig. Það er ekki sanngjarnt að pressa þig að gera eitthvað sem þig langar ekki, sama hvað manneskjan hefur gert fyrir þig. Mundu að þú átt þinn líkama og það er þitt að leyfa öðrum að snerta hann, á þínum eigin forsendum. Það sama gildir auðvitað um þig, þú getur ekki gert ráð fyrir kynlífi út frá einhverju sem þú sagðir við eða gerðir fyrir hina manneskjuna.
Kynlíf er ekki skylda.
Þó svo að þú hafir stundað kynlíf áður, hvort sem það var í öðru sambandi eða með núverandi maka þínum, þá þýðir það ekki að þú þurfir alltaf að gera það. Þú átt rétt á því að stunda kynlíf þegar þig langar, þegar þú ert í stuði og segja nei ef þú ert ekki til. Það að þið stunduðuð kynlíf saman síðast þegar þið hittust þýðir ekki að þú þurfir að gera það aftur næst. Það þarf að fá skýrt samþykki í hvert skipti sem þið viljið stunda kynlíf. Það er mjög algengt að makar séu ekki alltaf í stuði fyrir kynlíf á sama tíma, og þurfið þið að geta rætt það og þolað það.
Það getur verið erfitt að átta sig hvar mörkin liggja á netinu – en það er jafn mikilvægt að þekkja mörkin sín og virða mörk annarra þótt samskiptin fari ekki fram augliti til auglitis.
Hér eru nokkrar spurningar sem geta hjálpað þér að átta þig á því hvar mörkin ykkar liggja:
Þegar þú hefur velt fyrir þér þínum mörkum getiði rætt málin saman. Þá getið þið fundið út hvað ykkur finnst í lagi og hvað virkar ekki fyrir ykkur. Þið eiga rétt á því að hlustað sé á ykkar mörk og þau virt í öllum stafrænum samskiptum. Ef annar vill stjórna því hvernig samskiptum ykkar er háttað á netinu eða virðir ekki mörk getur það verið merki um að sambandið sé óheilbrigt og jafnvel að um stafrænt ofbeldi sé að ræða.
Þegar líður á sambandið geta þessi mörk breyst. Þér gæti farið að þykja eitthvað óþægilegt sem þér fannst í góðu lagi, eða farið að finnast eitthvað í lagi sem þú varst óviss með áður. Því er mikilvægt að halda samtalinu áfram og ræða málið ef þú skiptir um skoðun.
Fleiri atriði sem gott er að hafa í huga varðandi friðhelgi einkalífsins á netinu og í símanum:
Lykilorð eru einkamál.
Gott er að halda sínum lykilorðum út af fyrir sig, jafnvel þótt maður treysti hinum aðilanum. Þú átt rétt á stafrænni friðhelgi, alveg eins og þú átt rétt á að verja tíma út af fyrir þig. Ýmislegt getur komið upp á ef hinn aðilinn hefur aðgang að samfélagsmiðlunum þínum, spjalli og öðrum reikningum. Til öryggis er best að halda lykilorðunum fyrir sig.
Myndir og sexting.
Það er eins með sexting og líkamlegu mörkin – mikilvægast er að finna út úr því hvað þér líður vel með og virða mörk annarra. Ef þú treystir einstaklingnum og þig langar til að senda kynferðislegar myndir og skilaboð skaltu fullvissa þig um að einstaklingurinn viti af því og gefi samþykki. Það er aldrei í lagi að þrýsta á neinn eða hóta til að fá slíkt efni sent. Þegar þú færð myndir eða skilaboð með þínu samþykki ber þér að virða það að þetta efni var einungis sent til þín og er ekki ætlað öðrum. Þegar kynferðisleg skilaboð og myndir eru annars vegar eiga allir rétt á því að beðið sé um samþykki og að mörk þeirra sem og friðhelgi einkalífsins séu virt.
Stafræn mörk eftir sambandsslit.
Það er sjaldan sem fólk hugsar um að hætta saman þegar það er að byrja í sambandi. Hins vegar er það frekar algengt að fólk hættir saman og því skynsamt að ræða hvað þið mynduð gera ef sambandið endar og þið hafið sent viðkvæmar myndir og efni (t.d. nektarmyndir, kynferðislegt efni). Þrátt fyrir að einstaklingar geti verið í ástarsorg eða ósáttir við sambandsslitin, er mikilvægt að virða stafræn mörk og fylgja óskum hins aðilans, t.d. um að eyða viðkvæmu efni.