Stundum er erfitt að sjá muninn á heilbrigðu sambandi og óheilbrigðu. Ólíkt góðum samböndum sem ganga út á jafnrétti, virðingu og traust snúast þau óheilbrigðu um það að stjórna hinni manneskjunni. Á fyrstu stigum sambanda eru flestir að sýna sínar bestu hliðar og vanda sig sérstaklega mikið. Ef óheilbrigð hegðun fer síðan að koma í ljós gerum við kannski lítið úr henni eða áttum okkur ekki á henni strax.

Afbrýðisemi, lítillækkandi ummæli, stjórnsemi, að hækka róminn og að stugga við eða hrinda eru allt óeðlilegar samskiptaleiðir sem notaðar eru til að ná stjórn yfir annarri manneskju og öðlast vald í sambandinu. Þetta eru oft fyrstu merki ofbeldissambands. Ofbeldi er alltaf val þess sem beitir því og það er aldrei neitt sem afsakar ofbeldi.

Ef þú heldur að þú sért mögulega í óheilbrigðu sambandi skaltu gera eitthvað í málinu sem fyrst. Hér eru nokkur atriði sem er gott að hafa í huga:

  • Það breytist enginn nema hann langi til þess. Þú getur ekki breytt hegðun maka þíns ef hann sér ekki að hann er að gera eitthvað rangt.
  • Einbeittu þér að eigin þörfum. Þín heilsa skiptir máli. Vertu með vinum þínum, passaðu upp á næringu og svefn og ræktaðu áhugamálin þín. Ef þú finnur að sambandið er að taka úr þér allan mátt ættirðu að íhuga að slíta því.
  • Ræktaðu tengslanetið þitt. Passaðu að verja tíma með þínum nánustu, út af fyrir ykkur. Vertu til staðar fyrir vini þína og ræktaðu vináttuna á ykkar forsendum, ekki forsendum makans. Ofbeldisfólk reynir gjarnan að einangra makann frá vinum og vandamönnum til að ná betra taki á honum.
  • Íhugaðu að slíta sambandinu. Mundu að þú átt rétt á að upplifa öryggi og hlýju í þínu sambandi.

Þótt þú getir ekki breytt makanum þá geturðu breytt aðstæðunum. Íhugaðu að hætta með manneskjunni áður en ofbeldið versnar. Hvort sem þú ákveður að halda áfram í sambandinu eða fara úr því skaltu muna að setja eigið öryggi í fyrsta sæti. Hafðu samband við vini eða vandamenn sem geta stutt þig í þinni ákvörðun eða leitaðu til fagaðila sem vinna með ofbeldi. Einnig getur þú tekið sjálfspróf um hvernig sé komið fram við þig í sambandinu til þess að kanna hvort sambandið sé óheilbrigt.

Hér fyrir neðan eru stutt myndbönd úr Sjúkást herferðinni 2021 sem fjalla um óheilbrigða hegðun í samböndum: