Auðvitað viljum við öll heyra frá þeim sem við erum í sambandi við, hvernig þau hafi það, hvað sé verið að gera og svo framvegis og oft notum við samfélagsmiðla til þess. Stafræn samskipti eru eins og öll önnur samskipti – þau þurfa að byggjast á virðingu og trausti. Þú átt ekki heimtingu á svari innan einhvers ákveðins tíma né geturðu gert kröfu um að hinn aðilinn upplýsi þig sífellt um ferðir sínar og félagsskap.

Að senda makanum endalaus skilaboð getur verið til marks um stjórnsemi, yfirgang og skort á trausti – ekki um ást og umhyggju.

SEXTING OG KYNFERÐISLEGAR MYNDIR

Þegar kemur að sexting og því að senda kynferðislegt myndefni, er mikilvægt að gera sér grein fyrir hvar mörkin þín og hinnar manneskjunnar liggja. Það er mikilvægt að vera á sömu blaðsíðu þegar kemur að því að senda kynferðislegar myndir og skilaboð og virða mörk annarra. Varastu að beita þrýstingi eða að senda efni að óvöru. Hin manneskjan í sambandinu tekur ákvörðun um að taka þátt í kynferðislegum athöfnum með þér – það á líka við um kynferðislegar myndir, sexting eða önnur stafræn, kynferðisleg samskipti. Þótt þú viljir eiga í slíkum samskiptum verðurðu að virða rétt hinnar manneskjunnar til að taka eigin ákvarðanir. Ekki þrýsta á hinn aðilann að senda kynferðisleg skilaboð og hótaðu aldrei að birta myndir eða skilaboð sem manneskja hefur sent þér, því það er ofbeldi. Að dreifa nektarmyndum eða öðrum kynferðislegum skilaboðum án samþykkis er líka ofbeldi og ólöglegt.

AÐ LESA SKILABOÐ ANNARRA

Heilbrigð sambönd byggjast á trausti, ekki afbrýðisemi. Virtu einkalíf maka þíns – honum er frjálst að tala við hvern þann sem hann vill eiga í samskiptum við. Ekki skoða síma hans án leyfis eða skipta þér af því við hverja hann talar. Slík hegðun er til marks um stjórnun og jafnvel ofbeldi.

HÓTANIR Í GEGNUM SKILABOÐ

Að senda hótanir er ofbeldi og varðar við lög. Traust, virðing og væntumþykja einkenna heilbrigð sambönd. Mundu að sýna virðingu í samskiptum. Ef þú finnur fyrir afbrýðisemi skaltu íhuga að ræða málið á yfirvegaðan hátt við maka þinn svo hægt sé að leita að lausna í sameiningu.