Ef einhver eltir þig, fylgist með þér eða áreitir þig ítrekað er verið að ofsækja þig, með öðrum orðum að “stalka” þig. Sá sem ofsækir þig getur verið aðili sem þú þekkir, fyrrum maki eða ókunnug manneskja.

Hér eru dæmi um ofsóknir:

  • ‍Mætir upp að dyrum hjá þér eða á vinnustað óumbeðinn og án þess að láta vita fyrirfram
  • Sendir þér óumbeðin skilaboð, bréf, tölvupósta eða talhólfsskilaboð
  • Skilur óumbeðna hluti eftir handa þér – gjafir eða blóm
  • Hringir endalaust í þig og skellir síðan á
  • Notast við samfélagsmiðla og tækni til að fylgjast með þér og tékka á staðsetningu þinni
  • Dreifir orðrómi um þig á netinu eða slúðrar um þig
  • Hringir óumbeðinn í þig
  • Hringir í yfirmann þinn, samstarfsfélaga, kennara eða vini
  • Heldur sig á þeim stöðum sem hann veit að þú sækir oft
  • Notar annað fólk sem uppsprettu upplýsinga um þig og líf þitt. Skoðar til dæmis Instagram-síðu þína í gegnum aðgang hjá þriðja aðila eða vingast við vini þína til þess að nálgast frekari upplýsingar um þig
  • Eyðileggur eigur þínar – bíl, heimili o.s.frv.

HVAÐ EF EINHVER ER AÐ OFSÆKJA MIG?

Ef þú ert þolandi ofsókna er líklegt að þú finnir fyrir mikilli streitu, kvíða eða vanmætti. Þú gætir einnig átt í vandræðum með svefn eða einbeitingu í skóla eða vinnu. Mundu að þú þarft ekki að takast á við málið á eigin spýtur. Ef þú telur þig í hættu skaltu hringja tafarlaust í 112 og fá aðstoð lögreglu.

Það gæti reynst gagnlegt að geyma sönnunargögn til þess að styrkja mál þitt – svo sem:

  • SMS eða skilaboð í gegnum samfélagsmiðla
  • Myndbönd
  • Bréf, myndir og kort
  • Óumbeðna hluti eða gjafir sem þér hafa borist
  • Vinabeiðnir á samfélagsmiðlum
  • Skilaboð á samfélagsmiðlum eða tölvupóst

Það er líka gott að skrifa niður tímasetningar, staðsetningar og dagsetningar allra atburða sem tengjast þessum ofsóknum. Ef þú getur skaltu líka skrifa niður nöfn og upplýsingar um fólk sem varð vitni að ofsóknunum.

Að verða fyrir ofsóknum er streituvaldandi. Þú gætir upplifað martraðir, svefnleysi, þunglyndi eða fundist þú ekki hafa neina stjórn lengur á eigin lífi. Þessi viðbrögð eru eðlileg. Það getur reynst hjálplegt að segja vinum eða fjölskyldumeðlimum frá ástandinu og fá aðstoð frá hjálparsamtökum til að vinna úr afleiðingunum.