Hefur þú áhuga á að láta gott af þér leiða? Viltu taka þátt í að breyta heiminum til hins betra? Ertu hugsanlega aktívisti nú þegar? Vantar þig ráð varðandi aktívisma? Þá ertu á réttum stað!

Aktívistar eru fólk sem vill hafa áhrif á heiminn og grípur því til ýmiss konar aðgerða. Þessar aðgerðir geta verið margar og mismunandi, t.d. að skrifa greinar, kommenta á netinu, mæta á mótmæli, tala við skólafélaga, taka þátt í starfi félagasamtaka og margt fleira. Aktívismi er af öllum stærðum og gerðum en í grunninn eru aktívistar einfaldlega fólk sem vill láta gott af sér leiða og ræðir hreinskilnislega um afstöðu sína til að vekja aðra til umhugsunar.

Hér að neðan eru nokkur ráð sem gott er að hafa í huga varðandi aktívisma, hvort sem hann er nýr af nálinni fyrir þig eða þú hefur lengi tekið virkan þátt.

MEÐVITUND UM MÁLEFNIÐ

Fyrsta skrefið til þess að gerast aktívisti er að fræðast um málefnið sem er þér hugleikið. Þú getur aflað þér upplýsinga á netinu eða í bókum (en hafðu í huga hvaðan heimildirnar koma), talað við fólk sem þekkir vel til eða sótt viðburði sem snúa að þessu málefni. Mestu skiptir að þú reynir að kynna þér mismunandi sjónarmið svo þú getir myndað þér sjálfstæða skoðun á málinu. Sýndu þolinmæði, því það tekur tíma að afla sér upplýsinga úr ólíkum áttum. Haltu áfram að hlusta og læra. Flestir aktívistar eru duglegir við að fræðast sífellt meira, jafnvel þótt þeir hafi myndað sínar eigin skoðanir og hafi þekkingu á málaflokknum.

Hins vegar er gott að hafa í huga að:

Hafa varann á því hvaðan upplýsingar berast og frá hverjum. Upplýsingar litast af skoðunum og lífsreynslu þeirra sem setja þær fram. Mikilvægt er að muna þetta en vera samt sem áður opin fyrir því að heyra ólíkar skoðanir og hlusta á reynslu annarra.

Sýna fólki virðingu. Margir aktívistar hafa varið miklum tíma í að afla sér upplýsinga og læra af öðrum. Mikill tími fer í slíka vinnu og því mikilvægt að sýna virðingu með því að hlusta þegar manneskja tjáir sig um málefni sem stendur henni nærri.

Mynda sér sjálfstæða skoðun. Þú hefur rétt á því að mynda þér sjálfstæða skoðun út frá þinni eigin sannfæringu og lífreynslu. Hafðu í huga að þótt þú sért ekki sammála öðrum er mikilvægt að sýna virðingu í samskiptum.

Halda áfram að hlusta, ræða og læra. Aktívismi er ferli, ekki endapunktur. Við erum stöðugt að uppgötva eitthvað nýtt varðandi sama málefnið og því er mikilvægt að halda áfram að afla sér upplýsinga, hlusta á aðra, ræða við fólk (líka fólk sem maður er ósammála) og mynda sér skoðun.

Það er allt í lagi að vita ekki allt. Ekkert okkar veit allt. Ekki óttast að spyrja spurninga til að öðlast dýpri skilning á viðfangsefninu. Verum opin fyrir því að við gætum haft rangt fyrir okkur og tilbúin að breyta skoðun okkar eftir því sem við áttum okkur betur á ólíkum hliðum málefnisins.

SAMVINNA

Aktívismi gengur mikið út á samvinnu og fer gjarnan fram í einhvers konar félagsstarfi. Því er mikilvægt að geta unnið með öðrum. Aktívistar mynda gjarnan tengslanet með öðrum aktívistum sem taka þátt í pólitískri baráttu, þótt baráttan geti verið af ólíkum toga. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga varðandi samstarf:

Myndaðu tengslanet. Mikilvægur málstaður kallar á að ná til sem flestra og virkja þá. Þess vegna er gott að þekkja aðila sem hægt er að vinna með. Leggðu þig fram um að kynnast fólki sem hefur svipaða sýn og þú og sem þú sérð fram á farsælt samstarf við.

Sameiginlegt traust og virðing. Leitastu eftir því að vinna með fólki sem þér líður vel í kringum, sem kann að meta þitt vinnuframlag og er traustsins vert. Gott er að vinna með fólki sem getur verið ósammála þér en sýnir þér og þínum skoðunum virðingu.

Leitaðu eftir samstarfi. Samstarf við aðra getur reynst hjálplegt, hvort sem það eru einstaklingar, stofnanir eða önnur félög. Með samstarfi verður auðveldara að skipta með sér verkum og það stækkar einnig markhópinn sem þið náið til. Önnur félög, stofnanir eða einstaklingar hafa sambönd sem þau geta virkjað. Einn kostur þess að vinna með öðrum felst í því að læra af reynslumeira fólki. Í samstarfi geturðu fengið upplýsingar um góða styrktaraðila, vettvang eða hugmyndir að nýju verkefni.

Forgangsraðaðu verkefnum og dreifðu ábyrgðinni. Að dreifa ábyrgð er eitt það mikilvægasta sem þú gerir þegar þú tekur að þér verkefni. Ef þú finnur að þú hefur tekið of mikið að þér, finnur til óöryggis eða sérð ekki fram á að geta leyst verkefnið á eigin spýtur skaltu leita eftir aðstoð frá öðrum. Treystu samstarfsaðilum fyrir þeirra hlut, jafnvel þótt þú hefðir farið öðruvísi að. Þegar ábyrgðinni á verkefni er dreift á fleiri aðila verður auðveldara að leysa það af hendi.

Sýndu sveigjanleika. Þegar unnið er með öðrum koma fram ólíkar skoðanir um hvernig best væri að leysa verkefni, hvaða málefni eiga að fara í forgang og hvernig dreifa á ábyrgðinni. Í samstarfi er jafn mikilvægt að tjá eigin skoðanir og að hlusta á aðra. Sýndu sveigjanleika í vinnuaðferðum og taktu skoðanir og hugmyndir annarra til greina.

Hrósaðu. Það er bæði orku- og tímafrekt að berjast fyrir málstað sem skiptir okkur máli. Öll sem leggja hönd á plóg eiga hrós skilið. Í samstarfi er mikilvægt að taka eftir framlagi annarra og hrósa þegar við á.

Láttu rödd þína og annarra heyrast. Rödd þín skiptir máli, en það skiptir einnig máli að leyfa annarra rödd að heyrast. Öll nálgumst við málin út frá mismunandi sjónarhornum. Í sumum tilfellum er mikilvægt að skapa rými svo aðrir geti tjáð sínar skoðanir, hugmyndir og upplifun. Ef þú ert ítrekað í sviðsljósinu eða í forsvari fyrir hópinn skaltu íhuga að leyfa öðrum að spreyta sig. Mikilvægt er að sýna fram á breidd hópsins sem berst fyrir málefninu.

AÐ HAFA ÁHRIF

Einn mikilvægasti þáttur aktívisma er að virkja aðra í kringum sig. Barátta aktívista snýst gjarnan um kerfis- og samfélagslegar breytingar – og enginn framkallar slíkar breytingar eitt og óstutt! Það er brýnt að gera sér grein fyrir því hvar þörfin liggur – hvaða mál þarf að tækla. Hvar er þörf fyrir meiri fræðslu eða frekari umræður og hvernig er hægt að stuðla að breytingum? Er gagnlegt að standa fyrir stórum viðburði eða búa til persónulegt rými til að ræða viðkvæm málefni? Þetta skaltu hafa í huga þegar ætlunin er að virkja fólkið í kringum þig.

Aktívistar standa gjarnan fyrir viðburðum til að vekja athygli á vissum málefnum. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar haldnir eru viðburðir:

  • ‍Þekktu markhópinn. Íhugaðu til hverra þú vilt ná og hvernig best sé að ná til þeirra. Markhópurinn getur verið jafnaldrar þínir, embættismenn, stofnanir eða fólk á miðjum aldri. Það skiptir máli að gera sér grein fyrir markhópnum svo hægt sé að meta hvaða viðburðir myndu ná best til hópsins.
  • Nýttu þér aðstöðuna í kringum þig. Þegar kemur að rými og samstarfi við aðra getur verið gott að nýta sér skóla, félagsmiðstöðvar, kennslustofur, nemendafélög, íþróttafélög, sali í bæjarfélaginu eða stofnanir á staðnum. Hafðu samband við aðila sem geta hjálpað til við að panta rými og halda viðburð.
  • Nýttu þér samfélagsmiðla. Eins og þú eflaust veist er hægt að ná til margra í gegnum samfélagsmiðla. Nýttu þér Facebook, Instagram, Tiktok, Reddit, Twitter eða Snapchat til að ná til sem flestra!
  • Sæktu um fjármagn. Ef viðburðurinn er umfangsmikill eða tímafrekur í undirbúningi getur verið góð hugmynd að afla fjár. Til dæmis má sækja um styrki hjá sjóðum, félögum, stofnunum eða einkafyrirtækjum. Sendu póst á þá aðila sem þér dettur í hug og segðu frá verkefninu. Margir eru tilbúnir að styðja ungmenni og viðburði á þeirra vegum, sérstaklega ef málstaðurinn er góður.

Hafðu ráð okkar í huga hvað varðar heilbrigð samskipti, traust og virðingu í samstarfi sem og í samskiptum við markhópa og hugsanlega styrktaraðila. Ef þú veist ekkert hvernig viðburð væri sniðugt að halda geturðu skoðað þessar hugmyndir:

HUGMYNDIR AÐ VIÐBURÐUM/VERKEFNUM

  • Ljóðaslamm/open mic-kvöld
  • Sýning á heimildamynd eða kvikmynd sem tengist málefninu
  • Málþing til að ræða hvernig stuðla má að breytingum
  • Fá einhvern utanaðkomandi til að halda fyrirlestur um málefnið eða eitthvað sem tengist því
  • Upplýsingaborð þar sem skólafélagar geta talað við aktívista og fengið fræðslu
  • Flashmob
  • Ljósmyndasamkeppni
  • Hæfileikakeppni
  • Vegglistaverk
  • Opið bréf til stjórnvalda/borgaryfirvalda/skólayfirvalda

ÞÚ OG ÞÍN HEILSA

Ekki gleyma að huga að þér og þinni heilsu þegar þú tekur þátt í aktívisma. Þín orka, tími og heilsa eru mikilvægari en öll verkefni sem þú tekur að þér – hvort sem það er líkamlega heilsan eða sú andlega. Áður en þú tekur að þér verkefni skaltu velta því fyrir þér hversu mikinn tíma og orku þú hafir til að sinna því og hvort það muni borga sig fyrir þig. Ef þú finnur að þú ert ekki í aðstöðu til að sjá um ákveðið verkefni skaltu leyfa öðrum að taka við því. Það er enginn skömm að því að huga að eigin líðan. Allir græða á því að manneskja sem hefur bæði tíma og orku taki verkefnið að sér. Ef þú finnur að þú getur tekið þátt að einhverju leyti skaltu vera skýr með það hvaða hlutdeild þú munir eiga í verkefninu. Ef þú hefur nú þegar tekið að þér verkefni en finnur að það bitnar á líkamlegri eða andlegri heilsu þinni skaltu láta vita. Betra er að draga sig út úr verkefnum en að líða fyrir þau.

Eitt það mikilvægasta sem aktívistar gera er að bera virðingu fyrir eigin heilsu. Þess vegna verðum við að setja mörk þegar við tökum að okkur verkefni. Heilsan er númer eitt, tvö og þrjú!

Hér eru nokkrir hlutir sem gott er að hafa í huga, hvort sem þú hefur nú þegar tekið virkan þátt í aktívistastarfi eða ert að stíga þín fyrstu skref:

  • Þinn tími skiptir máli. Oft koma upp spennandi verkefni sem erfitt er að segja nei við. Hins vegar er mikilvægt að hugsa málið áður en svarað er og velta því fyrir sér hversu mikinn tíma og orku maður hafi til að sinna verkefninu. Það er betra að taka að sér færri verkefni og gera þau vel.
  • Íhugaðu tímakaup. Sjálfboðavinna er aktívismi en aktívismi fer ekki alltaf fram í sjálfboðavinnu. Ef upp kemur spennandi verkefni eða ef þú býrð til verkefni sem þú veist að þörf er fyrir skaltu íhuga að semja um kaup fyrir tímann sem fer í að leysa það af hendi – t.d. ef þú ert í samstarfi við félag eða stofnun – eða að sækja um styrki. Aktívismi byggist ekki einungis á sjálfboðavinnu. Það er mikilvægt að aðgreina sjálfboðavinnu og launaða vinnu. Ef verkefni er krefjandi, vegna þess að það tekur mikinn tíma eða er erfitt viðfangs, getur verið viðeigandi að taka greiðslu fyrir. Þetta á sérstaklega við ef þú hefur reynslu að baki og býrð yfir mikilli þekkingu á málefninu.
  • Þekktu styrkleika þína og veikleika. Það er gott að vita hverju maður er góður í og hvar maður mætti bæta sig. Láttu hins vegar þína styrkleika og veikleika ekki endilega stjórna því hvaða verkefni þú tekur að þér, heldur gefa þér vísbendingu um þau svið þar sem þú gætir viljað bæta þig.
  • Hafðu trú á þér. Aktívismi er langhlaup. Það tekur tíma að sanka að sér reynslu og þekkingu á tilteknum málefnum. Vertu með opinn hug og hjarta í samskiptum við aðra. Öll þau sem láta sig málin varða eru aktívistar.
  • Hlúðu að þér. Ræktaðu áhugamál þín utan aktívismans. Nærðu þig. Ræktaðu vina- og fjölskyldusambönd. Sinntu öðrum skyldum svo verkefnin hrannist ekki upp. Hvíldu þig og fáðu góðan nætursvefn.
  • Forðastu að brenna út. Sumir aktívistar taka of mikið að sér, upplifa mikla ábyrgð og ganga fram af sér. Þetta getur haft alvarlegar andlegar og heilsufarslegar afleiðingar. Settu mörk og haltu þig við þau. Hafðu í huga ráðin á þessari síðu hvað varðar heilsu þína, að skipta með sér verkefnum og að hlúa vel að sér. Þetta eru lykilatriði sem hjálpa þér að forðast að brenna út í starfi.

SAMSKIPTI

Það sama gildir um samskipti innan aktívisma og öll önnur samskipti. Heilbrigð samskipti eru undirstaða heilbrigðs aktívisma; traust, umhyggja og virðing. Þegar kemur að málefnum sem við brennum fyrir hefur fólk oft ólíkar skoðanir og þú gætir orðið fyrir gagnrýni. Opnaðu á reynslu, hugmyndir og skoðanir annarra. Sýndu fólki virðingu með því að hlusta og meðtaka það sem það hefur fram að færa. Íhugaðu hvaðan gagnrýnin kemur, forðastu að hrökkva í vörn og gefðu þér rými til að læra af öðrum. Ef þér finnst gagnrýnin ósanngjörn getur þú rætt það við viðkomandi og aðra í kringum þig. Við höfum öll einhverja innbyggða fordóma, við gerum öll mistök og við skiptum öll um skoðun einhvern tíma í lífinu. Sýndu þér umburðarlyndi þegar kemur að gagnrýni eða mistökum og lærðu af reynslunni. Þegar kemur að rökræðum skaltu forðast að nota gildishlaðin orð eða ráðast á persónu fólks, þótt þú sért þeim ósammála. Íhugaðu svörin þín og reyndu að notast við haldbær rök. Leggðu þig fram um að sýna kurteisi, bera virðingu fyrir öðrum og setja þín eigin mörk í samskiptum.

SAMFÉLAGSMIÐLAR

Athugaðu að það sama gildir um samskipti augliti til auglitis og samskipti á samfélagsmiðlum eða annars staðar á netinu. Hafðu heilbrigð samskipti í huga þegar þú nálgast aðra á netinu. Einnig er mikilvægt að huga að eigin líðan – þú getur haft þessi ráð til hliðsjónar:

  • ‍Þekktu eigin mörk. Á netinu gilda sömu samskiptareglur og annars staðar. Ef þú finnur að einhver fer yfir þín mörk í kommentakerfi eða skilaboðum skaltu íhuga að draga þig út úr samræðunum eða láta hinn aðilann vita hvernig þér líður. Ef upp kemur umræða sem þú treystir þér ekki til að taka þátt í eða lesa skaltu íhuga að sleppa því. Hugaðu fyrst og fremst að þinni andlegu heilsu.
  • Veldu þér bardaga. Þótt þú brennir fyrir málefnið skiptir máli að vita hvenær þú hefur orku, tíma og getu til að taka þátt í umræðum á netinu. Veltu fyrir þér hverju þú munir áorka með þátttöku þinni hverju sinni. Þegar þú tekur þátt skaltu hafa í huga að margir eru þöglir áhorfendur sem taka ekki beinan þátt en lesa það sem þú skrifar og geta lært af því.
  • Einbeittu þér að málefninu, ekki manneskjunni. Þegar þú ræðir við fólk á netinu skaltu einblína á málefnalegar rökræður fremur en manneskjuna hinum megin við skjáinn. Haltu þig við skýr rök og forðastu að ræða manneskjuna sjálfa, jafnvel þótt hún sé lituð af þeim samfélagslegu viðhorfum sem þú vilt breyta. Reyndu eftir fremsta megni að sýna kurteisi og virðingu því þá er fólk mun líklegra til að hlusta á þig. Ef þú heldur umræðunum á málefnalegum grundvelli er líklegra að þú hafir áhrif á hugarfar annarra og stuðlir þar með að samfélagslegum breytingum.

 

FJÖLMIÐLAR

Það gæti gerst að fjölmiðlar hafi samband varðandi málstaðinn sem þú berst fyrir. Það er frábært að fjölmiðlar vilji ræða það sem skiptir þig máli. Nýttu tækifærið og komdu boðskapnum áleiðis.

Þér ber engin skylda til að tala við fjölmiðla. Ef það vekur upp óöryggi hjá þér, þú fyllist ónotatilfinningu eða hefur of lítinn tíma til að undirbúa þig þarftu ekki að tala við fjölmiðla.

Biddu um meiri tíma. Ef fjölmiðlafólk hringir óvænt í þig getur reynst vel að biðja það að hringja aftur eftir korter. Búðu til afsökun ef þú þarft þess – til dæmis að þú sért í tíma eða úti í búð. Fjölmiðillinn á að sýna skilning ef þú biður um meiri tíma til að undirbúa þig. Auka tími getur hjálpað þér að undirbúa svör í huganum við mögulegum spurningum. Komdu þér fyrir á stað þar sem þér líður þægilega og þú verður ekki fyrir truflun.

Spurðu um markmið umfjöllunarinnar. Það getur verið hjálplegt að spyrjast fyrir um sjónarhorn umfjöllunarinnar svo þú getir undirbúið svör þín út frá því. Ef þér er boðið í sjónvarpsviðtal eða útvarpsþátt getur verið gott að spyrja hvernig stemming verði í þættinum. Allar upplýsingar aðstoða þig við undirbúninginn.

Lestu yfir efni áður en það er birt. Fjölmiðlafólk er oft undir tímapressu. Mundu þó að taka skýrt fram að þú viljir lesa yfir efnið áður en það er birt. Leiðréttu orðalag sem þér fellur ekki í geð eða ummæli sem höfð voru rangt eftir þér.

Hafðu gaman af! Leyfðu þér að njóta þess að haft hafi verið samband við þig vegna málstaðar sem skiptir þig máli. Til hamingju!

 

Öll framlög skipta máli, sama hversu lítil þau eru – þitt framlag skiptir líka máli!