Heilbrigð samskipti eru mikilvæg í öllum samböndum, burtséð frá kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu einstaklinga.

Hvort sem einstaklingarnir í sambandinu skilgreina sig sem homma, lesbíur, eikynhneigða, pankynhneigða, kynsegin, intersex, trans, eru ekki alveg viss með skilgreiningu eða skilgreina sig sem hinsegin á einhvern annan hátt er alltaf jafn mikilvægt að leggja áherslu á heilbrigð samskipti, samþykki, mörk, traust og alla aðra þætti sem heilbrigð sambönd samanstanda af.

Heilbrigð sambönd geta verið alls konar en það sem þau eiga sameiginlegt er að virðing, jafnrétti og traust ríkir hjá báðum (eða öllum) aðilum. Hér eru nokkur merki þess að þú sért í heilbrigðu hinsegin sambandi:

  • Þið virðið persónufornafn og nafn hvort annars
  • Þið eruð meðvituð um og virðið mörkin ykkar
  • Þið gefið hvort öðru rými til að hanga með vinum og ættingjum, án þess að upp komi ásakanir um framhjáhald
  • Makinn virðir hvernig og hvenær þú vilt koma út gagnvart öðrum, og hótar ekki að out-a þig við fólk
  • Makinn virðir hvernig þú skilgreinir og upplifir þig og segir þér aldrei að þú sért t.d. ekki alvöru lesbía, hommi, kvár o.s.frv.
  • Makinn virðir kyntjáningu þína og útlit
  • Makinn virðir mörk þín og byggir upp traust á öllum sviðum sambandsins, líka þegar kemur að kynlífi

ÉG ER Í ÓHEILBRIGÐU EÐA OFBELDISFULLU HINSEGIN SAMBANDI.

Ef þú ert hinsegin og finnst þú vera í óheilbrigðu eða ofbeldisfullu sambandi er mikilvægt að þú leitir þér hjálpar. Stundum gagnast að ræða við náinn vin eða fjölskyldumeðlim en í sumum tilfellum er gott að tala við óháðan aðila. Þú getur rætt við fagaðila sem vinna með þolendum ofbeldis, en Samtökin ’78 bjóða líka upp á ókeypis ráðgjöf hjá fólki sem er vel að sér í hinsegin málefnum og hefur mikla reynslu af vinnu með hinsegin fólki. Einnig er hægt að fá aðstoð á Stígamótum eða á SjúktSpjall.

Hér getur þú lesið meira um óheilbrigð hinsegin sambönd.