Opinská og heiðarleg samskipti eru nauðsynleg öllum samböndum. Hér fyrir neðan eru nokkur ráð til að viðhalda heilbrigðum samskiptum.

ATH. Ef þú ert í ofbeldisfullu sambandi getur verið að þessir punktar eigi ekki við. Ef þig grunar að einhver þessara ráða gætu valdið þér óþægindum eða skaða skaltu ekki notast við þau.

HVERNIG ER BEST AÐ TÆKLA SAMRÆÐUR ÞEGAR ÉG REIÐIST?

Það er eðlilegt að finna við og við til reiði, enda er hún mannleg tilfinning. Hins vegar er mikilvægt að leysa úr deilum á heilbrigðan og uppbyggilegan hátt. Ef þú finnur að reiðin er að taka yfir gæti eftirfarandi hjálpað til:

Finna rétta tímann.
Ef eitthvað er að angra þig við sambandið eða samskipti ykkar skaltu finna rétta tímann til að ræða málið. Reyndu að finna tíma þegar þið eruð ekki að flýta ykkur, í uppnámi eða annars hugar. Ef þið eruð upptekin er gott að koma sér saman um tíma þegar þið getið sest niður og rætt málin.

Talið saman augliti til auglitis.
Forðastu að ræða alvarleg mál í skrifuðum texta. Það er auðvelt að misskilja skilaboð því þú sérð ekki manneskjuna sem þú ert að tala við. Til að forðast misskilning getur verið betra að ræða málið augliti til auglitis. Ef þú ert ekki viss hvað þú vilt segja eða hvernig þú vilt segja það geturðu prófað að skrifa það niður fyrirfram og lesa síðan upphátt. Athugaðu að þetta á ekki endilega við ef þú ert í óheilbrigðu sambandi eða ofbeldissambandi og treystir þér ekki að tala við manneskjuna í eigin persónu.

Ekki ráðast á einstaklinginn.
Jafnvel þegar við meinum vel eigum við það til að orða hlutina harkalega. Yfirlýsingar um að hin manneskjan sé svona eða hinsegin geta hljómað eins og árás og líklegra að manneskjan fari í vörn, sem kemur í veg fyrir gagnlegar samræður. Prófaðu í staðinn að tala út frá sjálfu þér – t.d. með því að segja: „Mér líður eins og við höfum ekki verið náin upp á síðkastið,“ í staðinn fyrir: „Þú hunsar mig.“

Hafðu hreinskilni að leiðarljósi.
Best er ef þú og makinn þinn séuð sammála um að vilja eiga í hreinskilnum samskiptum. Stundum er sannleikurinn særandi, en ef þið viljum byggja upp heilbrigt samband verðum þið að geta rætt saman og sagt hvernig ykkur líður, jafnvel þó það sé erfitt eða vont.

Íhugaðu að bíða í sólarhring.
Ef eitthvað hefur reitt þig til reiði er gott að ræða það saman. Íhugaðu hins vegar að láta reiðina renna af þér áður en farið er í það að ræða málið. Bíddu í sólarhring, sjáðu svo hvernig þér líður og taktu samtalið ef þig langar enn til þess. Hafðu í huga að enginn getur lesið hugsanir þínar og því er nauðsynlegt að tjá þær. Þegar þú nefnir það sem þér liggur á hjarta gefurðu makanum tækifæri til að íhuga hegðun sína. Hins vegar er ekki hjálplegt að draga fram hluti úr fortíðinni sem tengjast ekki því sem verið er að ræða um.

Stoppaðu.
Ef þú kemst í mikið uppnám, stoppaðu aðeins og dragðu andann djúpt. Láttu makann vita að þú viljir taka þér smá hlé áður en þið haldið áfram að tala saman. Taktu þér tíma í að róa þig niður, til dæmis með því að horfa á sjónvarpið, spila tölvuleik, hlusta á tónlist, fara í göngutúr, hringja í vin eða hvaðeina sem dreifir huganum.

Hugsaðu.
Eftir að þú hefur útskýrt hvernig þér líður skaltu muna að það skiptir líka máli að hlusta á það sem hin manneskjan hefur að segja. Báðir aðilar eiga skilið að tjá sína upplifun og tilfinningar í öruggu umhverfi.
Í fyrstu virka þessi ráð kannski vandræðaleg og þvinguð. Það er allt í lagi enda geta samskipti verið flókin og erfið. En það er með þau eins og allt annað: æfingin skapar meistarann. Ef við viljum byggja upp heilbrigt samband skiptir máli að við tjáum okkur.

AÐ LEYSA ÚR ÁGREININGI

Í öllum samböndum kemur á einhverjum tímapunkti upp ágreiningur. Með „ágreiningi“ er átt við rifrildi og ósætti af ýmsum toga. Það er allt í lagi að verða ósammála, enda hefurðu rétt á þinni eigin skoðun þótt hún stangist á við skoðun makans, vina eða fjölskyldu. Hins vegar er mikilvægt að sýna fólki virðingu þegar þið ræðið mál sem þið eruð ósammála um.

Ef þú ert í heilbrigðu sambandi er lykilatriði að tala saman. Góð samtöl og samskipti skapa betri tengsl og meiri skilning á líðan ykkar. Með því að takast á við ágreiningsmál og leysa úr þeim í sameiningu leggið þið grunn að þroskuðu og heilbrigðu sambandi.

Það er ósköp eðlilegt að upp komi ágreiningur, en það getur líka verið til merkis um að sambandið sé ekki að virka. Ef þið eruð ósammála um til dæmis hvaða mynd þið ættuð að horfa á, hvaða vini þið eigið að hitta í kvöld eða hver eigi að vaska upp, sem myndu teljast minniháttar ágreiningar, skaltu prófa að hafa þessi ráð í huga:

Settu mörk.
Við eigum öll eiga skilið að komið sé fram við okkur af virðingu – jafnvel þegar upp kemur rifrildi eða ágreiningur. Ef makinn uppnefnir þig eða niðurlægir á annan máta er mikilvægt að þú komir því til skila að slík hegðun er ekki liðinn í ykkar sambandi. Ef makinn hættir ekki þessari hegðun skaltu koma því á framfæri að þú viljir ekki halda samræðunum áfram í þessum tóni og fara í burtu.

Finndu hina raunverulegu ástæðu ágreiningsins.
Stundum er rót ágreinings allt önnur en það sem rifist er um, til dæmis að öðrum einstaklingnum finnist ekki tekið mark á þörfum hans í sambandinu eða að hann fái ekki að tjá skoðanir sínar og tilfinningar. Ef þú til dæmis reiðist yfir því að makinn fari sjaldan út með ruslið getur raunverulega ástæðan verið sú að þér líður eins og þú takir alla ábyrgð á heimilinu og að makinn leggi sig ekki nægilega mikið fram. Gott er að velta því fyrir sér hver raunverulega ástæðan gæti verið og tala saman um það.

Verið sammála um að vera ósammála.
Ef þið getið ekki komist að samkomulagi eða niðurstöðu er stundum best að hvíla umræðuefnið. Þið getið ekki verið sammála um allt. Einbeitið ykkur að því sem skiptir máli. Ef umræðuefnið liggur þungt á þér og þú getur ekki hugsað þér að „vera sammála um að vera ósammála“ getur verið að þið eigið einfaldlega ekki saman.

Komist að samkomulagi.
Í heilbrigðu sambandi skiptir máli að komast að samkomulagi um ákveðin mál. Langar makann í kínverskan mat en þig í indverskan? Sættist á að fá ykkur kínverskan í dag og indverskan á morgun. Finnið milliveginn sem gerir ykkur báðum kleift að vera sátt við útkomuna.

Íhugaðu allar hliðar málsins.
Er deilumálið mikilvægt? Hefur það áhrif á það hvernig þér líður gagnvart hinni manneskjunni? Ertu að brjóta gegn þínum gildum í lífinu? Ef svarið er já, þá er mikilvægt að þú standir fast á þínu. Ef ekki, þá er þetta hugsanlega mál sem hægt er að komast að samkomulagi um. Íhugaðu líka það sem hinn aðilinn hefur að segja. Af hverju er hann í uppnámi? Geturðu séð málið frá hans sjónarmiði? Er óvenjulegt að svona mál komi honum í uppnám? Komist þið oftast að samkomulagi um önnur mál? Ertu nokkuð tillitslaus við hann?

Ef þú hefur reynt þessi ráð en þið rífist samt reglulega skaltu hugsa vel og vandlega hvort þetta samband sé að virka fyrir ykkur. Þú átt skilið að vera í sambandi þar sem er ekki stöðugur ágreiningur og þú þarft ekki hvað eftir annað að verja þínar skoðanir og líðan.

Þótt það sé eðlilegt að upp komi ósætti í sambandi á það aldrei að snúast upp í persónulegar árásir eða niðurlægingu, hvort sem þær beinast að þér eða öðrum í kringum þig. Ef þú getur ekki tjáð þínar skoðanir og líðan án þess að búast við neikvæðum viðbrögðum getur verið að um óheilbrigt samband sé að ræða.

Mundu að ef manneskjan reynir að stjórna þér, spila á samvisku þína og gera lítið úr þínum skoðunum eða líðan (eða hegðar sér á einhvern svipaðan hátt) er það til merkis um að sambandið sé óheilbrigt. Þú getur prófað að máta þína upplifun við þessar spurningar:

Er maki þinn (eða annar náinn aðili) í uppnámi vegna þess að:

  • Þú fórst á æfingu eða í bíó með vinum þínum í staðinn fyrir að verja tíma með viðkomandi?
  • Viðkomandi skoðaði símann þinn og var ekki ánægður með þá sem þú hefur verið að hringja í/spjalla við?
  • Þú ert að hanga með vinum þínum en hinn aðilinn heldur að þú sért að halda framhjá?
  • Þú ert ekki til í að stunda kynlíf?
  • Þú ert að reyna að læra en hin manneskjan vill að þið talið saman?