Að standa með aðila sem grunur er um að hafi beitt aðra manneskju kynferðislegu ofbeldi, hafa mikla samúð með honum og líta framhjá atvikinu, eru allt merki um gerendameðvirkni. Þetta getur ýmist átt við gerendur sem þú:
Gerendameðvirk manneskja trúir frekar að gerandi sé ekki sekur um brotið, heldur en að trúa frásögn þolanda. Gerendameðvirkni getur jafnvel haft í för með sér að geranda er breytt í fórnarlamb. Á meðan er þolandanum, sem er hið raunverulega fórnarlamb, kennt um ofbeldið eða sögð vera að ljúga eða leitast eftir athygli eða peningum. Þannig tengist gerendameðvirkni hugtakinu þolendaskömmun, sem þú getur lesið þér til um hér.
Vert er að taka það fram að þegar við tölum um gerendameðvirkni erum við að fjalla um kynbundið ofbeldi. Þess vegna fjöllum við um þolendur sem konur/stelpur og gerendur sem karla/stráka. Það þýðir samt alls ekki að strákar geti ekki verið þolendur og stelpur gerendur eða að allir strákar séu gerendur og að allar stelpur séu þolendur ofbeldis.
„Saklaus uns sekt er sönnuð“
Þetta vísar til þess að við eigum frekar að treysta á réttarkerfið, heldur en frásagnir þolenda um ofbeldi sem þeir hafa orðið fyrir. Þetta er ekki rökrétt vegna þess að margir þolendur kæra ekki af ýmsum ástæðum og fáir gerendur eru dæmdir.
„Hún er að ljúga til þess að fá athygli“
Það er afar sjaldgæft að konur ljúgi til um að hafa orðið fyrir ofbeldi. Auk þess er athyglin sem margir þolendur sem segja frá fá, afar neikvæð og ekki eftirsóknarverð.
„En hann er svo góður gaur“
Góðir gæjar geta líka beitt ofbeldi. Gott fólk getur gert vonda hluti, en það er mikilvægt að það taki ábyrgð á gjörðum sínum og breyti hegðun sinni.
„Æ, hann er bara svona“
Þetta er tilraun til að afsaka gjörðir gerenda. Það er ekki neitt sem heitir „bara smá“ ofbeldi. Enginn á rétt á því að áreita eða beita ofbeldi, sama hvernig „týpa“ aðilinn er.
„Hann hefur alltaf verið næs við mig“
Manneskja getur komið mjög vel fram við sumt fólk í kringum sig eins og t.d. vini sína eða vinnufélaga, en beitt svo aðra ofbeldi, t.d. maka sinn.
„Er hún ekki bara að oftúlka?“
Við eigum að trúa frásögnum þolenda. Þolendur ofbeldis upplifa alvarlegar sálrænar afleiðingar. Að líta á málið sem svo að þolendur séu að oftúlka, ýkja eða ljúga gerir lítið úr erfiðri reynslu þeirra og getur aukið sársaukann sem ofbeldinu fylgir. Í staðinn eigum við að styðja við og hlúa að þolendum.
Gerendameðvirkni er ekki gagnleg neinum, hvorki geranda, þolanda né samfélaginu. Hún er skaðleg vegna þess að hún kemur í veg fyrir að aðilar sem beita ofbeldi, axli ábyrgð og breyti hegðun sinni. Hún er einnig skaðleg þolendum sem upplifa að þeim sé ekki trúað og geta upplifað sig sitja eftir einar að takast á við erfiða reynslu. Þá er hætta á enn meiri vanlíðan og að þolendur verði útskúfaðir eða eingangraðir frá samfélaginu.
Það getur verið erfitt að horfa upp á það að einhver skaði aðra í kringum sig, sérstaklega ef það er einver nákominn þér. En það er mikilvægt að líta ekki fram hjá ofbeldi. Það er mun gagnlegra að krefjast þess að gerandi axli ábyrgð á gjörðum sínum og styðja hann til þess. Hér getur þú lesið nánar um hvað þú getur gert sem aðstandandi geranda. Saman getum við sem samfélag unnið að því að uppræta ofbeldi og skapa betra samfélag fyrir okkur öll.