Kynferðisofbeldi er rótgróið í kynjakerfinu þar sem karlar eru í forréttindastöðu gagnvart konum, fólki af öðrum kynjum, unglingum og börnum. Það þýðir samt ekki að konur geti ekki beitt ofbeldi eða að karlar verði aldrei fyrir ofbeldi. Í stóra samhenginu er það hins vegar svo að yfirgnæfandi meirihluti gerenda ofbeldis eru þeir sem hafa einhvers konar völd og brotaþolarnir eru flestir valdaminni. Birtingarmyndir kynbundins ofbeldis geta verið ýmsar, t.d. andlegt, stafrænt, fjárhagslegt eða líkamlegt ofbeldi, heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi, mansal, vændi eða morð.
Eins og #metoo byltingin hefur svo glögglega sýnt er áreitni og ofbeldi sem byggir annað hvort á kyni, annarri jaðarstöðu eða kynferðislegum athugasemdum mjög útbreitt og algengt. Langflestar konur kannast við kynferðislega áreitni og þekkja þá tilfinningu að finnast þær ekki óhultar. Þess vegna eru t.d. margar konur tilbúnar með lyklana sína að vopni þegar þær labba einar heim og passa að sleppa aldrei hendi af drykknum sínum á djamminu. Meðvitað og ómeðvitað gera konur ýmsar varúðarráðstafanir til að verjast kynbundnu ofbeldi og það hefur áhrif á lífsgæði þeirra og frelsi.