Nauðgunarmenning er orð sem notað hefur verið til að lýsa normalíserandi viðhorfum samfélagins gagnvart kynferðisofbeldi. Þegar við tölum um að eitthvað sé normalíserað, er átt við að tiltekið ástand þyki svo sjálfsagt að það teljist eðlilegur hluti af daglegi lífi sem við pælum ekki mikið í.
Nauðgunarmenning er alls ráðandi í samfélaginu og hefur áhrif á samskipti okkar við aðra, hvaða brandarar teljast fyndnir, hvernig snerting er talin við hæfi, hvaða ummæli og viðhorf eru álitin eðlileg og þar fram eftir götunum. Í stuttu máli má segja að nauðgunarmenning sé menning sem umber og viðheldur ofbeldi, með því að loka augunum fyrir því, gera lítið úr því, afsaka það og réttlæta, bæði á stórum skala og smáum.
Dæmi um nauðgunarmenningu eru nauðgunarbrandarar. Þegar fólk gerir grín að nauðgunum sendir það þau skilaboð að nauðgun sé eitthvað fyndið og léttvægt – sem er langt frá veruleikanum. Annað dæmi um nauðgunarmenningu er þegar konum er bent á að til að forðast nauðgun verði þær einfaldlega að klæða sig á ákveðinn hátt, drekka lítið og vera stöðugt meðvitaðar um umhverfi sitt. Það sendir þau skilaboð að þær beri ábyrgð á að vera ekki nauðgað – í staðinn fyrir að sá sem nauðgar beri ábyrgðina, sama hvernig aðstæðurnar eru! Viðhorf sem þessi hafa alvarlegar afleiðingar og smitast út í allt samfélagið, hvort sem er í daglegu tali eða innan réttarvörslukerfisins, þar sem atriði eins og klæðaburður brotaþola voru lengi vel talin skipta máli við rannsókn nauðgunarmála og fyrir dómstólum.
Það er mikilvægt að líta inn á við og velta fyrir sér hvernig nauðgunarmenning hefur áhrif á þig og fólkið í kringum þig. Áttu það til að gera grín að nauðgunum eða telja þær léttvæga atburði, jafnvel fyndna? Tekurðu eftir því að aðrir í kringum þig geri það? Finnst þér þú eiga rétt á kynferðislegri nautn, umfram tilfinningar manneskjunnar sem þú ert með? Finnst þér réttlætanlegt að hunsa ölvun, meðvitundarleysi eða mótþróa þegar það hentar þér? Finnst þér í lagi að suða um kynlíf þangað til þú færð það sem þú vilt? Þetta eru allt saman dæmi um viðhorf sem eiga uppruna sinn í nauðgunarmenningu. Ef við erum öll meðvituð um neikvæðar afleiðingar nauðgunarmenningar getum við unnið gegn þessum viðhorfum og átt í heilbrigðari samskiptum.