Staðalímyndir eru þær yfirborðskenndu hugmyndir sem við höfum um fólk út frá því hvaða hópi það virðist tilheyra, hvernig það klæðir sig, talar, ber sig o.s.frv. Staðalímyndir eru í raun fyrirframgefnar hugmyndir um einstaklinga út frá samfélagslegri stöðu þeirra og byggja á alhæfingum sem standast ekki nánari athugun – enda eru engin tvö eins þótt þau tilheyri sama hópi.
Dæmi um staðalímynd er t.d. glimmerhommi. Staðalímynd homma er gjarnan á þá leið að þeir hafi allir gaman af fatakaupum, bullandi áhuga á förðun og tísku og dýrki að slúðra um aðra. Hins vegar gefur það auga leið að ekki hafa allir hommar þessi áhugamál, enda hópurinn fjölmennur og fjölbreyttari en svo. Það þýðir hins vegar ekki að það sé neikvætt að samrýmast staðalímyndinni – heldur að mikilvægt sé að gera sér grein fyrir því að ein staðalímynd gefur ekki rétta mynd af heilu samfélagi. Flestir hópar eiga sér staðalímynd – hvort sem er út frá kyni, kynhneigð, þjóðerni, stétt, trúarbrögðum, fötlun, húðlit eða einhverju öðru.
Kynhlutverk litast gjarnan af staðalímyndum. Gott dæmi um þetta er hið hefðbundna kynhlutverk kvenna; þær eiga að huga að útlitinu, vera sætar og skemmtilegar, góðar í að elda, sinna heimilishaldi og unga út fullt af börnum sem þær síðan annast að mestu leyti. Auðvitað hafa ekki allar konur áhuga á þessu þótt sumar samsami sig þessu hlutverki og vilji sinna því.