Kynlíf er spennandi fyrirbæri og vekur eðlilega upp margar spurningar. Það getur verið mjög skemmtilegt að ræða saman um kynlíf og velta hlutunum fyrir sér, en sömuleiðis er mikilvægt að muna að margt af því sem þú heyrir er einfaldlega ekki satt.
Hér að neðan eru nokkrar algengar mýtur og staðreyndir um kynlíf sem gott er að vita af:
1. Stelpur vilja ekki stunda kynlíf og eiga ekki frumkvæði að kynlífi.
Stelpur hafa ekki í eðli sínu minni kynhvöt en aðrir og þær eiga jafnmikið frumkvæði að kynlífi og hver annar. Fólk hefur mismikla kynhvöt, óháð kyni. Í samfélaginu leynast hins vegar ýmis skilaboð sem hvetja stráka til að vera virkir kynferðislega og gera ráð fyrir að stelpur séu það ekki. Þessi skilaboð setja pressu á fólk um að haga sér samkvæmt fyrir fram gefnum hugmyndum samfélagsins. Það er mikilvægt að líta gagnrýnum augum á þessi skilaboð og hlusta á eigin langanir.
2. Strákar eru alltaf til í tuskið, annars er eitthvað að.
Sú ranghugmynd er algeng að strákar séu tilbúnir í kynlíf hvar og hvenær sem er og séu stöðugt að hugsa um kynlíf. Kynhvöt stráka er mismunandi eftir hverjum og einum – einn er með mikla kynhvöt á meðan annar hefur litla eða enga og allt þar á milli. Þessi mýta ýtir líka undir þá ranghugmynd að strákar geti ekki orðið fyrir kynferðisofbeldi því þeir séu alltaf til í tuskið. Líkt og allir aðrir hafa strákar mörk í kynlífi og er mikilvægt að gera sér grein fyrir sínum mörkum og tjá þau í rúminu.
3. Allar stelpur eru með píkur, allir strákar með typpi og það eru bara til þessir tveir hópar fólks.
Þessi mýta er mjög þrautseig en gerir ekki ráð fyrir fjölbreytileika mannkynsins. Margar stelpur eru með typpi, margir strákar með píku og svo er fólk sem hvorki skilgreinir sig sem karl eða konu, óháð kynfærunum sínum. Annað fólk fæðist með ódæmigerð kyneinkenni, sem þýðir að líffræðileg uppbygging þeirra er frábrugðin því sem við eigum að venjast. Það getur hvort sem er sést utan á viðkomandi, komið í ljós við kynþroska eða aldrei uppgötvast. Við erum eins fjölbreytt og við erum mörg, upplifum okkur mismunandi og höfum ólíka líkama. Það er mikilvægt að bera virðingu fyrir líkama, skilgreiningum hvers og eins og hvernig hvert og eitt vill láta koma fram við sig í rúminu.
4. Þú þarft að stunda typpi-í-píku-kynlíf til að missa meydóminn/sveindóminn.
Það er algengur misskilningur að fyrsta skiptið sé þegar þú stundar typpi-í-píku-kynlíf í fyrsta sinn. Í fyrsta lagi er kynlíf mun fjölbreyttara en einungis að setja typpi í píku. Þar má nefna munnmök, fróun, örvun á kynfærum með fingrum eða kynlífsdóti, endaþarmsmök og aðra innilega snertingu. Í öðru lagi gerir þessi mýta oftast einungis ráð fyrir gagnkynhneigðum pörum, en hinsegin pör stunda oft kynlíf sem hefur ekkert með typpi-í-píku að gera. Það er þitt að skilgreina hvað þú upplifir sem kynferðislega athöfn með annarri manneskju og því þitt að segja til um hvenær þú hefur stundað kynlíf.
5. Fyrsta skiptið mun verða vont – og jafnvel í nokkur skipti eftir á.
Kynlíf á aldrei að vera vont, hvort sem um er að ræða fyrsta skiptið eða það tugþúsundasta. Þessi mýta er því kjaftæði frá upphafi til enda. Kynlíf snýst um að eiga í innilegum, skemmtilegum og nánum samskiptum við aðra manneskju, að njóta þess að snerta og vera snert. Þá skiptir engu hvort um er að ræða ókunnuga manneskju eða einstakling sem þú hefur verið að deita í langan tíma. Ef eitthvað í kynlífi veldur þér sársauka er mikilvægt að hætta strax. Þú átt skilið að upplifa öryggi, væntumþykju, spennu og gleði við að stunda kynlíf.
6. Kynlíf er eins og klám. Þú verður að stynja hátt, fara í ýktar stellingar, raka kynfærin og líta út eins og klámstjarna til að vera aðlaðandi.
Mörg ungmenni horfa reglulega á klám og fá hugmyndir sínar um kynlíf oft þaðan. Í klámi er mikið af steiktum skilaboðum um kynhegðun og æskilegt útlit. Þar eru flestar konurnar grannar og rakaðar að neðan, á meðan karlarnir eru með risastórt typpi og dúndrandi standpínu í marga klukkutíma. Samskiptin milli þeirra eru oft af skornum skammti og lítið um innilegheit og væntumþykju. Varla er hægt að líkja þessu við kynlíf þar sem grunnurinn að góðu kynlífi eru heiðarleg og opin samskipti sem byggjast á virðingu og trausti. Þá skiptir engu máli hvernig manneskjan lítur út. Þú getur lesið þér meira til um muninn á klámi og kynlífi hér.
7. Fatlað fólk hefur ekki kynhvöt.
Margir halda að fatlað fólk hafi ekki kynhvöt og efast jafnvel um að það stundi kynlíf. Fatlað fólk eru kynverur líkt og aðrir og hafa mismunandi kynhvatir, kynhneigðir, kynvitundir og langanir hvað varðar kynlíf, óháð fötluninni. Ímyndir af fötluðu fólk í sjónvarpsþáttum og á öðrum miðlum sýna oft fatlað fólk í einsleitu ljósi og gerir ráð fyrir að líf þeirra markist einungis af fötluninni. Þetta er fjarri veruleikanum, því fatlað fólk stofnar til rómantískra og kynferðislegra sambanda líkt og hvert annað fólk. Sambönd fatlað fólks eru eins fjölbreytt og þau eru mörg.
8. Ef þú ert í sambandi áttu alltaf að vera til í kynlíf, annars elskarðu ekki hina manneskjuna.
Þú ákveður hvort þú vilt stunda kynlíf eða ekki og maki þinn á að virða ákvörðun þína jafnvel þótt hann sé ekki á sama máli. Þú átt ekki að þurfa að stunda kynlíf til þess að viðhalda sambandi þínu og sanna ást þína til makans. Fólk í kringum þig gæti verið á öðru máli og haft aðrar skoðanir á kynlífi í sambandi en það breytir því ekki að ákvörðun þín er ofar öllu. Þú átt alltaf rétt á því að segja nei.
9. Fólk í sambandi stundar ekki sjálfsfróun.
Að stunda sjálfsfróun á meðan þú ert í sambandi er ekki svik við maka þinn. Það er heilbrigt að stunda sjálfsfróun. Við kynnumst líkama okkar betur og það getur reynst vel í kynlífi og hjálpað ykkur að fullnægja hvort öðru. Sjálfsfróun losar einnig um spennu, hvort sem hún er kynferðisleg eða ekki.
10. Þegar þú byrjar að stunda kynlíf máttu ekki segja stopp.
Þú átt alltaf rétt á því að segja nei og stopp, jafnvel þótt þú hafir samþykkt að stunda kynlíf til að byrja með – það er engin skömm að því. Það má alltaf segja nei, sama á hvaða stigi þið eruð í keleríi eða kynlífi. Þú skuldar engum kynlíf og það er mikilvægt að virða mörkin þín og bólfélagans. Mundu að þú átt þinn eigin líkama og ræður hver má snerta hann, hvernig og hvenær. Þetta á líka við í parasamböndum, sama hversu lengi þið hafið verið saman.
11. Allir eru að gera það – og eiga að vilja gera það.
Samfélagið okkar er gríðarlega upptekið af kynlífi. Kynlíf er sett á háan stall en engu að síður er lítil fræðsla um það. Við þurfum ekki öll að hafa áhuga á kynlífi – annað gerir okkur ekki að verri manneskjum eða minna spennandi. Klámvæðing samfélagsins hefur talið okkur trú um að við eigum alltaf að vilja kynlíf og sýna kynferðislega hegðun. Áhugi á kynlífi skilgreinir okkur ekki sem einstaklinga. Þinn líkami er þín eign og þú ræður yfir honum, bæði þegar kemur að löngunum og ánægju. Svo eru bara ekkert allir sem langar að stunda kynlíf yfirhöfuð!