Kynferðislegt ofbeldi er skerðing á kynfrelsi einstaklings, t.d. þegar einhverjum er þröngvað til að gera kynferðislega hluti sem hann vill ekki eða þegar pressað er á viðkomandi að taka þátt.

Samkvæmt lögum þarf samþykki að liggja fyrir til að stunda kynlíf eða gera aðra kynferðislega hluti, það er ekki nóg að manneskjan sagði ekki nei.

Einnig er það kynferðislegt ofbeldi ef einhver misnotar stöðu sína gagnvart einhverjum til að fá hann til að gera kynferðislega hluti, svo sem fullorðinn einstaklingur gegn barni eða unglingi, og skiptir þá engu þótt viðkomandi veiti samþykki.

Dæmi um kynferðislegt ofbeldi eru m.a.:

Kossar eða snerting gegn vilja þínum

Harkalegar eða ofbeldisfullar kynferðislegar athafnir án þíns samþykkis

Nauðgun eða tilraun til nauðgunar

Að neita að nota smokk eða taka hann af án þess að bólfélaginn viti af því

Kynlíf með einhverjum sem er mjög drukkinn eða undir áhrifum fíkniefna og getur ekki veitt meðvitað, einlægt samþykki – hvort sem manneskjan er vakandi eða meðvitundarlaus

Að nota hótanir til að þröngva einhverjum til kynferðislegra athafna

Að þrýsta á einstakling að taka þátt í kynferðislegum athöfnum af einhverjum toga

Að nýta sér valdastöðu gagnvart þér (t.d. aldur, reynsla, tengsl í gegnum fjölskyldu, skóla, vinnu, íþróttir o.fl.) til að fá þig til að taka þátt í kynferðislegum athöfnum af einhverjum toga

Að dreifa af þér kynferðislegu myndefni án samþykkis

Kynferðisleg áreitni er þegar farið er yfir mörk á kynferðislegan hátt. Áreitnin getur verið með orðum, táknræn eða líkamleg. Einnig getur hún verið stafræn. Það sem einkennir kynferðislega áreitni er að hún er óvelkomin og ekki með samþykki þess sem verður fyrir henni. Kynferðisleg áreitni er bönnuð með lögum.

Dæmi um kynferðislega áreitni eru m.a.:

káf gegn vilja þínum

snertingar gegn vilja þínum

kynferðislegar athugasemdir um eða við þig sem þú vilt ekki

kynferðislegir brandarar um eða við þig sem þú vilt ekki

kynferðislegar myndasendingar til þín án samþykkis

að reyna ítrekað við þig þó svo þú hafir sagt nei eða ekki sýnt áhuga

Það er mjög mikilvægt að muna að þótt manneskjan hafi ekki sagt „nei“ þýðir það ekki að viðkomandi sé að segja „já“ eða hafi veitt samþykki með öðrum hætti.

Þótt einhver berjist ekki á móti eða sýnir ekki skýrt nei þegar kemur að kynferðislegum athöfnum þýðir það ekki sjálfkrafa að viðkomandi gefi samþykki. Alls konar kringumstæður geta valdið því að fólk upplifir sig ekki öruggt til að segja „nei“, sum gætu verið hrædd, upplifað pressu, ekki viljað særa og margt fleira. Sum gætu hreinlega ekki verið í aðstöðu til að gefa samþykki, t.d. vegna ölvunar. Því er alltaf lykilatriði að vera fullviss um að meðvitað og einlægt samþykki sé fyrir öllum kynferðislegum athöfnum, líka þær sem eiga sér stað á netinu.

Stundum geta ógnandi aðstæður orðið til þess að fólk frýs og getur lítið hreyft sig. Við ógnandi aðstæður gæti það að veita viðnám gæti jafnvel sett brotaþola í ennþá meiri hættu. Sumir halda að ef brotaþoli streitist ekki á móti teljist atvikið ekki til ofbeldis. Það er ekki satt. Þetta er skemmandi mýta því hún ýtir undir sektarkennd og gerir brotaþolum erfiðara fyrir að segja frá og leita sér hjálpar. Það skiptir ekki máli hvort manneskjan var undir áhrifum, fann fyrir þrýstingi, ógnun eða fannst hún verða að gefa eftir – kynferðislegt ofbeldi er alltaf á ábyrgð gerandans.

MUNDU

  • Öll eiga rétt á því að ákveða hvaða kynferðislegu athafnir þau samþykkja eða samþykkja ekki.
  • Kynferðisofbeldi þarf ekki að fela í sér árás eða líkamlegt ofbeldi.
  • Kynferðisofbeldi er ekki bara nauðgun.
  • Flestir þolendur kynferðisofbeldis þekkja gerandann.
  • Fólk af öllum kynjum getur orðið fyrir kynferðisofbeldi.
  • Fólk af öllum kynjum getur beitt kynferðisofbeldi.
  • Kynferðisofbeldi getur átt sér stað í hinsegin samböndum, sís-gagnkynja samböndum og hvaða sambandi sem er.
  • Kynferðisofbeldi getur átt sér stað á milli einstaklinga sem hafa áður átt í samþykktu kynferðislegu sambandi, t.d. í hjónabandi og langtímasambandi.
  • Kynlíf á að vera gott og heilbrigt! Lestu þér betur til um heilbrigð samskipti og sambönd hér.

HVAÐ ER HÆGT AÐ GERA?

Ef þú hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi skaltu muna að það var ekki þér að kenna. Það getur verið að þú finnir fyrir ýmsum óþægilegum og erfiðum tilfinningum en þær eru aldrei rangar. Við svona aðstæður er eðlilegt að upplifa allskonar tilfinningar. Íhugaðu hvað þú vilt gera í stöðunni. Hér fyrir neðan eru nokkrir punktar um það sem hægt er að gera:

  • Talaðu við einhvern sem þú treystir. Eftir að hafa lent í kynferðisofbeldi finna margir fyrir ótta, sektarkennd, reiði og skömm eða eru hreinlega í áfalli. Það skiptir sköpum að hafa einhvern hjá sér sem veitir stuðning, t.d. vinkonu, vin, foreldri, kennara eða annan starfsmann í skólanum, íþróttafélaginu eða félagsmiðstöðinni þinni. Þú getur alltaf talað við ráðgjafa á Sjúktspjall.
  • Þú getur fengið aðhlynningu á neyðarmóttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðisbrota. Þar færðu læknisskoðun, lyf við kynsjúkdómum eða til að koma í veg fyrir þungun, lögfræðilega aðstoð og tilvísun í sálfræðiþjónustu.
  • Ef þú ert 18 ára eða eldri geturðu pantað viðtal hjá ráðgjafa á Stígamótum sem aðstoðar þig við að vinna úr afleiðingum ofbeldisins.
  • Ef þú ert yngri en 18 ára geturðu fengið hjálp í Barnahúsi. Hafðu samband við barnaverndarnefnd í þínu sveitarfélagi til þess að fá frekari upplýsingar.
  • Þú getur tilkynnt ofbeldið til lögreglu.