Þú skuldar engum kynlíf, ekki heldur kærastanum. Kynlíf á að byggja á samþykki, annars er það ekki kynlíf heldur kynferðislegt ofbeldi. Þú stjórnar því hvort, hvenær og hvernig þú vilt stunda kynlíf með annarri manneskju. Kynlíf á að einkennast af virðingu og trausti. Í heilbrigðu sambandi geturðu sagt kærastanum þínum að þig langi ekki að stunda kynlíf þá stundina eða langi ekki að gera eitthvað tiltekið í rúminu, og hann virðir þá ákvörðun jafnvel þótt hann langi til þess. Klám getur haft ýmis neikvæð áhrif á kynlíf og samskipti. Þótt kærastann langi að prófa eitthvað úr klámi, er alls ekki víst að þú sért sammála og þú átt alltaf rétt á að neita því sem þig langar ekki að gera. Að eiga alltaf að vera til í allt kynferðislegt innan sambandsins er alls ekki rétt, og er ein af algengum mýtum um kynlíf. Ef kærastinn heldur áfram að þrýsta á þig þegar þú hefur látið vita að þig langi ekki, er það ein birtingarmynd kynferðisofbeldis.