Öll upplifum við afbrýðisemi einhvern tímann á lífsleiðinni. Afbrýðisemi er eðlileg tilfinning og hluti af rófi mannlegra tilfinninga. Hún getur birst á mismunandi hátt við mismunandi aðstæður – þú getur fundið fyrir afbrýðisemi í garð fjölskyldumeðlima, systkina, vina, aðila úr skólanum þínum, íþróttafélaginu, og í parasambandi.
Þú hefur alltaf tíma fyrir vinkonur þínar en ekki fyrir mig.
Já, ertu að fara að hitta gamla bekkinn þinn, verður fyrrverandi þar?
Þú ert með mér, af hverju varstu að tala við þessa stráka?
Þú ert alltaf með fjölskyldunni þinni án mín, erum við ekki par? Eigum við ekki að mæta saman?
Í sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, tónlistarmyndböndum og textum er afbrýðisemi í sambandi oft sýnd í rómantísku ljósi, eins og hún undirstriki að við elskum manneskjuna sem við erum með. Þetta er óheilbrigð birtingarmynd rómantíkur, enda er afbrýðisemi neikvæð tilfinning og á ábyrgð þess sem upplifir hana. Þessi tilfinning getur haft skaðleg áhrif á sambandið.
Það er mikilvægt að átta sig á því hvaðan afbrýðisemin kemur. Upplifirðu óöryggi? Sorg? Reiði? Sjálfshatur? Ertu með lágt sjálfsmat? Óttastu höfnun? Að verða útundan? Að missa manneskju sem skiptir þig máli? Afbrýðisemi sprettur gjarnan af óöryggi, hvort sem það er óöryggi í parasambandi, vináttu eða samskiptum milli fjölskyldumeðlima, og hún beinist gjarnan að þeim aðila sem við erum óörugg gagnvart. Stundum er afbrýðisemi viðbragð við því að vera beitt ofbeldi í sambandi.
Afbrýðisemi getur einnig sprottið af einhverju allt öðru. Kannski finnurðu fyrir óöryggi og það brýst út í samskiptum við aðra. Það skiptir máli að gera sér grein fyrir því að afbrýðisemi er þín eigin tilfinning og því á þinni ábyrgð en ekki annarra. Þú berð ábyrgð á því að skilja hver rótin er og takast á við þær tilfinningar sem þú ert að upplifa.
Það er hægt að takast á við afbrýðisemi.
Hér eru nokkur ráð um það sem þú getur gert:
Afbrýðisemi er stundum notuð sem stjórnunartæki í samböndum, til að stýra klæðnaði og útliti, hegðun og samskiptum hins aðilans. Slík stjórnun er ofbeldi sem getur skaðað hina manneskjuna. Taktu ábyrgð á eigin afbrýðisemi og leystu úr henni á farsælan máta. Leitaðu þér hjálpar ef þú átt í erfiðleikum með að takast á við þessar tilfinningar.
Hér fyrir neðan er stutt myndband úr Sjúkást herferð 2018 sem sýnir dæmi um það hvernig afbrýðissemi getur birst: